Fullyrt er á forsíðu DV að sænska fatakeðjan H&M sé á leið til Íslands og að hafnar séu viðræður milli forsvarsmanna keðjunnar og fasteignafélagsins Regins. DV segist hafa öruggar heimildir fyrir því að opnaðar verði tvær verslanir á höfuðborgarsvæðinu, önnur verði í Hafnartorgi sem verður opnað 2018 en hin í Smáralindinni. Helgi Gunnarsson, forstjóri Regins, neitaði að tjá sig um málið við DV sem kom út í morgun.

Heimildir DV herma að leigusamningar séu klárir en aðeins eigi eftir að ganga frá nokkrum smáatriðum. Ásamt vörumerkinu H&M munu verslunarrýmin tvö hýsa vörumerkin Cos og & Other Stories sem einnig eru í eigu móðurfyrirtækisins H&M Hennes & Mauritz AB.

Í síðustu viku hafði Morgunblaðið eftir Bolla Kristinssyni , eiganda verslunarinnar Sautján, að verslunarkeðjan hefði engan áhuga á verslunarrekstri hérlendis enda sýndu tölur um eyðslu Íslendinga í H&M-búðum erlendis að markaðshlutdeild fyrirtækisins á íslenskum markaði væri talsverð.