Heimsmeistarakeppnin í fótbolta er sá íþróttaviðburður sem Bandaríkjamenn hafa streymt mest í gegnum internetið. Í frétt Financial Times um málið kemur fram að bandarískir áhorfendur horfðu á tæplega 30 milljón klukkustundir samtals af myndbandsstreymi frá heimasíðu ESPN. Fyrra metið, 20,4 milljón stundir, var slegið á Ólympíuleikunum árið 2012.

Sjónvarpsáhorf á leiki Bandaríkjanna á HM var einnig töluvert, þrátt fyrir að þeir hafi flestir verið sýndir á vinnutíma. Rúmlega 20 milljón manns horfðu t.a.m. á leik Bandaríkjanna gegn Belgíu. Líklegt þykir að aukið áhorf á Heimsmeistarakeppnina í gegnum netið gefi til kynna að áhugi ungra Bandaríkjamanna á fótbolta fer vaxandi.