Karl-Johan Persson, forstjóri H&M Group og sonarsonur stofnanda fatakeðjunnar vinsælu, var staddur hér á landi í tilefni opnunar fyrstu verslunar fyrirtækisins hér á landi á laugardaginn.

Þegar blaðamaður ræddi við hann inn í nýju versluninni í Smáralind tveimur tímum fyrir opnun á laugardaginn fyrir viku hafði greinilega mikið verið lagt í undirbúninginn. Það má segja að það hafi glansað á vörurnar sem hópur fólks beið í röð fyrir utan eftir að fá að rífa í sig og væntanlega umbylta vel röðuðum fatabunkunum í atganginum.

„Við erum mjög spennt að opna. Það er frábært að vera hérna loksins eftir að hafa skoðað þennan markað í svona mörg ár,“ segir Karl-Johan. „Við höfum verið að skoða íslenska markaðinn í þónokkurn tíma, vitandi að það hefur verið mikill áhugi Íslendinga á H&M. Við höfum heyrt að nú þegar eigum við þónokkuð stóra markaðshlutdeild meðal Íslendinga í ferðum þeirra erlendis sem er ástæðan fyrir því að við höfum ákveðið að hefja starfsemi hérna á Íslandi.“

Kom markaðshlutdeild fyrir opnun á óvart

Spurður hvort hann hafi nokkuð áhyggjur af því að markaðshlutdeild fyrirtækisins gæti minnkað við það að opna, því óneitanlega er hluti af spenningnum við að fara í verslanir H&M erlendis það að vörurnar eru ekki til hér á landi, segist hann ekki hafa áhyggjur af því, en bregður við þegar hann heyrir tölur um markaðshlutdeild verslunarinnar hér á landi nú þegar fyrir opnun, en Meniga reiknaði út að hún hefði verið frá 17,7% upp í 22% á síðasta ári.

„Ó, það er rosalegt, en nú erum við hér sem er enn betra. Vonandi getum við nú gefið íslenskum neytendum enn áhugaverðari valkosti. Ég held að við bjóðum eitthvað sem er nýtt á íslenskum markaði þegar kemur að tísku, verðgildi fyrir peninginn sem og í sjálfbærni og verslunarupplifun.“

Nýkominn frá opnun Arket í London

Karl-Johan hafði ekki getað verið við sérstaka opnun verslunarinnar fyrir boðsgesti á föstudagskvöldinu því hann hafði verið viðstaddur opnun fyrstu Arket verslunar fyrirtækisins, sem er við Regent stræti í London.

„Í gær opnuðum við nýjasta vörumerkið okkar, Arket, en H&M Home er einnig nýlegt vörumerki með heimilisvörur, sem við byrjuðum með fyrir nokkrum árum og hefur gengið vel,“ segir KarlJohan sem segir koma til greina að opna verslanir undir öðrum vörumerkjum fyrirtækisins.

„Við höfum miklar væntingar til markaðarins á Íslandi, og þó að við höfum ekki enn ákveðið neinar dagsetningar, þá höfum við fleiri vörumerki undir merkjum H&M Group sem við erum að skoða fyrir markaðinn. Nefni ég þar á meðal COS, & Other Stories, Monki and Weekday auk H&M Home. Svo það eru ýmis tækifæri til að víkka út það sem viðhöfum upp á að bjóða fyrir Íslendinga.“

Byrjuðu að selja í gegnum vörulista

Beðinn um að segja hvert þessara vörumerkja hann sæi fyrir sér að kæmi þá fyrst hingað til lands segist hann geta giskað á það þó hann ætti ekkert að segja. „Ég giska á að það yrði H&M Home, en við sjáum til.“

H&M Home selur heimilisvörur eins og sængurver, kertastjaka, myndaramma, bolla, glös og svo framvegis. Þær vörur hafa notið talsverðra vinsælda fyrir einfaldan tímalausan stíl, allt frá því að fyrirtækið hóf að selja þær fyrst í gegnum vörubæklinga sína árið 2008.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .