Fasteignafélagið Reginn hefur fengið skriflega staðfestingu frá forsvarsmönnum verslunarkeðjunnar H&M um að búð fyrirtækisins í miðbænum verði opnuð — eftir að forstjóri H&M sagði í samtali við Viðskiptablaðið að opnun í miðbænum yrði endurskoðuð ef að ekki gangi vel með verslanirnar í Kringlunni og í Smáralind. Mbl.is ræddi við Helga S. Gunnarsson, forstjóra Regins, og fengu þetta staðfest.

Forstjórinn sagði að forsvarsmenn H&M hafa staðfest við fasteignafélagið skriflega að það séu gildandi samningar um opnun félagsins í miðbænum. Hann tók þó fram að ekki hafi verið ákveðið hvenær búðin kæmi til með að opna, en það væri ákveðið síðar af forsvarsmönnum H&M í samráði við Reginn. Nýverið opnaði búð félagsins í Smáralind, en ráðgert er að búð H&M opni í Kringlunni 28. september.