Ísland skipar 15. sæti yfir vörumerki 75 þjóða í úttekt FutureBrand. Niðurstöðurnar eru fyrir árin 2014-15 en það er áður en íslenska karlalandsliðið átti góðu gengi að fagna á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu og áhrif þess kunna að eiga eftir að koma fram. Það kann að varpa enn betra og jákvæðara ljósi á Ísland sem vörumerki en sömuleiðis eru líkur til þess að þátttaka í lokakeppni HM muni einnig hafa áhrif.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, telur tækifæri til þess að gera Ísland að tíu sterkustu vörumerkjum í heimi felast í HM og þau verði að nýta. „Já, ef rétt er á málum haldið varðandi HM í fótbolta núna þá held ég að það sé vel gerlegt og jafnvel innan fimm ára. Aðalatriðið er auðvitað það að þetta snýst um það að auka eftirspurn eftir Íslandi og því sem er íslenskt vegna þess að það græða allir á því. Framleiðslan er seld á hærra verði, það gagnast okkur, það gagnast fyrirtækjunum, það gagnast samfélaginu í heild sinni og það sem við gerum verður verðmætara,“ segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .