Lögreglan í S-Afríku þarf að tvöfalda gæsluna ef Obama ákveður að mæta á HM í sumar Helstu bænir lögregluyfirvalda í S-Afríku þessa dagana er að bandaríska landsliðið í knattspyrnu verði slegið út nógu snemma í HM í knattspyrnu í sumar.

Nú hefur ekkert komið fram um það að lögreglumenn í S-Afríku sé nokkuð í nöp við bandaríska landsliðið, ástæðan fyrir bænunum er einfaldlega sú að ef bandaríska liðið fer heim nógu snemma er minni möguleiki á því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mæti á HM.

Ekki hefur heldur neitt komið fram um að suður afrískum lögreglumönnum sé illa við Obama heldur kann allt umstangið í kringum öruggisgæslu Obama að verða þeim ofviða. Um þetta er fjallað í Telegraph.

Bheki Cele, yfirmaður öryggismála í S-Afríku, sagði á opnum þingnefndarfundi í vikunni af ef bandaríska liðið kæmist upp úr riðlakeppninni myndu möguleikarnir aukast á því að Obama kæmi í heimsókn. Hann bætti við að heimsón Obama kynnir að verða martröð.

„Okkar bænir fela það í sér að þeir komist ekki upp úr riðlakeppninni,“ sagði Cele og átti þar við bandaríska landsliðið.

Nú þegar hafa 43 þjóðarhöfðingjar boðað komu sína á HM í knattspyrnu í sumar sem hefst þann 11. júní nk. Sem kunnugt er fer keppnin fram í S-Afríku en þetta er fyrsta sinn sem keppnin er haldin í Afríku. Keppnin var fyrst haldin árið 1930.

Eins og gera má ráð fyrir verður gífurleg öryggisgæsla í kringum alla þessa þjóðarleiðtoga, fyrir utan keppnina sjálfa. Cele sagði á fundi með þingnefndinni að öryggisgæslan í kringum Barack Obama einan myndi jafnast á við alla hina og því þyrfti að tvöfalda alla gæslu ef hann kæmi til landsins.

Maite Nkoana-Mashabane, utanríkisráðherra S-Afríku, sagðist aðspurður um málið að Obama hefði nýlega sagt við Jacob Zuma, forseta S-Afríku, að hann myndi íhuga það að koma ef Bandaríkjamenn kæmust í 8-liða úrslit, myndi mögulega koma ef þeir kæmust í undanúrslit en myndi örugglega koma ef þeir kæmust í úrslit.

Bandaríkjamenn er í C-riðli með Englendingum, Slóvenum og Alsír.