„Þetta verður virkilega skemmtileg og spennandi keppni hérna í HR, þar sem hópar nemenda þurfa að vinna hratt og vel að því að finna nýjar og betri leiðir til að flytja og selja þorskhnakka til Bandaríkjanna, með það að markmiði að hámarka verðmætið,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, um Hnakkaþonið sem mun fara fram í skólanum á föstudag og laugardag.

Keppnin er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík og er opin öllum nemendum skólans. Áskorunin felst í því hvernig koma má ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæðamatvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni.

„Þetta er virkilega krefjandi viðfangsefni og nemendur þurfa að hugsa um alla þætti keðjunnar; flutning, kælingu, markaðssetningu, sölu, gæðastjórnun og fleira og fleira. En við höfum góða samstarfsaðila úr sjávarútveginum með okkur í keppninni til að kynna nemendum viðfangsefnið og vera þeim innan handar. Nemendurnir fá því góða innsýn inn í raunveruleg viðfangsefni sjávarútvegsins, en það er einmitt það sem þetta snýst um; að sýna nemendum hvaða tækifæri er þar að finna,“ segir Ari Kristinn.

Vinningsliðið fær að sækja stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku sem fram fer í Boston í mars næstkomandi. Ferðin er í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.