Aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir nýjan kjarasamning seint í gærkvöldi. Það gerðu samt ekki allir því fimm af nítján félögum innan Starfsgreinasambandsins hafa neitað að skrifa undir þar sem forsvarsmönnum þeirri þykir samningurinn ekki boðlegur.

"Mér líst virkilega illa á þessa kjarasamninga og tel þá reyndar vera hneyksli," segir Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags Þingeyinga, á vef RÚV. Hann segir að skattkerfisbreytingarnar gagnist ekki lágtekjufólki og það sé "til skammar".  "Í öðru lagi eru þessar launahækkanir neðan við allt sem hægt er að bjóða okkar fólki upp á."

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur oft gagnrýnt verkalýðsforystuna en í samtali á vef RÚV segir hann að nú taki "steininn úr".  Hann bendir á að atvinnugreinar eins og sjávarútvegurinn sé að skila 80 milljörðum í hagnað og á meðan sé aðeins verið að hækka laun fiskvinnslufólks um 9.750 krónur. "Hví í ósköpunum er tækifærið ekki nýtt og  laun fiskvinnslufólks leiðrétt svo um munar," spyr Vilhjálmur.

Anna G. Hjaltalín, formaður Drífanda, stéttarfélags í Vestmannaeyjum, telur samningana vera hræðilega fyrir launafólk. "Þeir gefa verkafólki örfáar krónur í launahækkun á meðan þeir sem meira hafa fá margfalt meira í vasann eftir þessa samninga."

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir verkalýðshreyfinguna í mjög langan tíma, og aftur núna,  hafa gert samninga þar sem laun lágtekjufólks hækkar meira að meðaltali en laun hinna. "Það tókst að gera það," segir hann á vef RÚV.

Kjarasamningurinn sem var undirritaður í gær er svokallaður aðfarasamningur. Auk launabreytinga gefur samningurinn aðilum 12 mánuði til að undirbúa gerð langtímasamnings. Með samningnum er tekin upp sú nýbreytni að gengið er frá sérstakri viðræðuáætlun sem unnið verður eftir með tímasettum markmiðum um framvindu. Nýi kjarasamningurinn gildir frá 1. janúar til 31. desember 2014.

Helstu atriði nýs kjarasamnings eru:

Kaupliðir

Almenn launahækkun: Hinn 1. janúar 2014 skulu laun hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma.

Sérstök hækkun kauptaxta: Í stað áðurgildandi kauptaxta komi nýir sem eru hluti samninga viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ. Launataxtar undir 230.000 kr. á mánuði hækka sérstaklega um 1.750 kr. Kauptaxtar gilda frá 1. janúar 2014.

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf: Lágmarkstekjur fyrir fullt starf skv. kjarasamningum viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ skulu vera kr. 214.000 frá 1. janúar 2014 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

Desember- og orlofsuppbót: Desemberuppbót  miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 53.600 (VR/LÍV 60.900). Orlofsuppbót (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 29.500 (VR/LÍV 22.200).

Framlög til fræðslu- og starfsmenntasjóða hækka um 0,1%.