Mjög jafnt verður á milli já og nei fylkinganna í kosningum um skilyrði Evrópusambandsins vegna neyðarláns til Grikklands, en Grikkir munu ganga til kosninga um málið á sunnudaginn. Kosningarnar snúast um það hvort Grikkir fallist á tilboð Evrópusambandsins um neyðarlán til að greiða 1,6 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Neyðarlánveitingin er háð ýmsum skilyrðum sem grískir ráðamenn hafa hingað til ekki viljað fallast á.

Í einni skoðanakönnun sögðust 44,8% svarenda fylgjandi því að fallist yrði á skilyrði ESB, en að 43,4% væru því andvíg. Önnur könnun benti til þess að 42,5% væru fylgjandi en 43,0% andvíg. Báðar niðurstöður eru vel innan skekkjumarka.

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa lýst því yfir að hafni Grikkir þessari neyðarlánveitingu í kosningunum jafngildi það því útgöngu landsins úr evrópska myntsamstarfinu. Þó virðast viðræður hafa haldið áfram eftir að ákveðið var að halda atkvæðagreiðsluna, enda hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagt til að Grikkir fái 20 ára frest þar sem ríkið myndi ekki greiða neitt af lánum sínum.