Hvað sem öllum fögrum orðum og yfirlýsingum líður er ljóst að fyrirhuguð yfirtaka Kaupþings á SPRON snýst um hagræðingu og arðsamari rekstur. Og það er líka alveg ljóst að hagræðingin næst ekki fram nema með því að fækka starfsfólki.

Og það er auðvitað alltaf afar viðkvæmt mál, ekki síst þar sem hluti þeirra verðmæta sem verið er að versla með felast í verðmætri en óefnislegri eign SPRON, sem liggur í ánægðum og traustum viðskiptavinum sem telja sig fá persónulegri þjónustu hjá SPRON en hjá „þeim stóru“.

Það breytir þó ekki því að spurningin sem brennur á vörum manna er þessi: Hversu mörgum verður sagt upp hjá SPRON renni sparisjóðurinn saman við eða kannski öllu heldur inn í Kaupþing?

Þeirri spurningu er erfitt að svara nákvæmlega og kannski réttast að svara í véfréttastíl og segja: Mörgum.

Gengur út á að stúta kostnaði og halda tekjum

Þótt menn veigri sér auðvitað við því að segja það berum orðum hlýtur markmið Kaupþings með yfirtökunni á SPRON að vera það að halda tekjum SPRON en ná niður kostnaði sparisjóðsins og helst sem mest þótt menn þurfi kannski að stíga varlega til jarðar í fyrstu.

Látum ónefndan bankamann segja þetta vafningalaust: „Ég held að viðskiptamódelið hljóti að ganga út á það að stúta kostnaðinum og halda tekjunum. Þeir hafa sagt að þetta snúist um hagræðingu og miðað við aðstæður núna sé mjög mikilvægt að leita hana uppi. Stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í rekstri fjármálafyrirtækja er starfsfólk og þetta hlýtur að snúast um það.“

Ekki skúringakonurnar

Lengi hefur verið haft á orði að þegar harðnar á dalnum og fyrirtækin þurfa að spara eru skúringakonurnar fyrstar að fá reisupassann en það á augljóslega ekki við í þessu tilviki; líklega er starfsfólkið á gólfinu í útibúum SPRON í minnstri hættu í þeirri hagræðingu sem mun án vafa eiga sér stað, en sama verður ekki sagt um þá sem vinna í stjórnunarstörfum eða betur launaðri störfum á sviði fjármála- og upplýsingatækni, fjárfestingabankastarfsemi og fyrirtækjaráðgjöf, svo eitthvað sé tínt til.

Flestir ganga að því sem gefnu að haldið verði í SPRON-nafnið og útibúin eins og gefið hefur verið út – enda kannski ekki skynsamlegt að rífa niður SPRON-skiltin og setja upp Kaupþings-skilti um leið og yfirtakan gengur í gegn.

Þegar til lengri tíma er litið er þó ekki víst að útibúin eða jafnvel SPRON-nafnið verði mönnum heilög vé enda ljóst að ná má fram hagræðingu í útibúarekstri, m.a. þar sem er bein skörun á milli útibúa Kaupþings og SPRON, en um það eru nokkur dæmi.

Þetta eru þó vitaskuld bara getgátur enn sem komið er en gamlir refir minna á að þegar Kaupþing og Búnaðarbankinn runnu saman hafi bankinn fyrst heitið Kaupþing-Búnaðarbanki, síðan KB banki og loks einfaldlega Kaupþing.

______________________________________

Nánar er fjallað um samruna Kaupþings og Spron, tölulegar staðreyndir félaganna og fjallað um framhald hins sameiginlega félags í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .