*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 7. október 2019 11:36

Hollywood fyrirtækjum víti til varnaðar

Formaður FVH og annar stofnandi Frama bendir á samhengi nýsköpunar við uppgang streymisveitna á kostnað Hollywood.

Ritstjórn
Björn Brynjúlfur Björnsson er hagfræðingur, formaður FVH og annar stofnandi vefskólans Frama, en áður var hann hjá Viðskiptaráði.
Haraldur Guðjónsson

Björn Brynjúlfur Björnsson fyrrverandi hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, nú formaður Félags viðskipta- og hagfræðinga og annar tveggja stofnanda vefskólans Frama, setur nýsköpun í skemmtilegt samhengi í nýrri grein í Viðskiptablaðinu.

Þar bendir hann á að mikil aukning framhaldsmynda meðal tekjuhæstu bíómyndanna síðustu áratugi sé merki um hnignun atvinnugreinarinnar sem oft er kennd við Hollywood, en frá 1981 til 2011 fjölgaði þeim úr 2 af 10 tekjuhæstu í 8 af 10 tekjuhæstu myndunum. 

„Hærra hlutfall framhaldsmynda er ekki bara merki um versnandi gæði heldur einnig um það að atvinnugreinin sé á niðurleið. Með því að framleiða framhaldsmyndir tryggja stóru stúdíóin sér tekjur til skemmri tíma í stað þess að fjárfesta í nýjum hugmyndum. Án nýrra bíómynda er hins vegar ómögulegt að búa til aðrar framhaldsmyndaseríur í framtíðinni,“ segir Björn Brynjúlfur.

Þannig sýni áherslur kvikmyndaveranna að þau hafi ekki trú á framtíðarhorfum atvinnugreinarinnar, sem tölur um fækkun bíógesta frá árinu 2005 staðfesti, sem og hagnaðartölur veranna.

Fjárfesta þurfi í nýsköpun sem þurfi að vera rétt skipulögð í fyrirtækjum

Þessa hnignun setur hann svo í samhengi við aðrar atvinnugreinar eins og lyfjafyrirtæki sem fjárfesti í gerð nýrra lyfja, fjármálafyrirtæki sem fjárfesti í stafrænni þróun, og svo framvegis ásamt því að fjalla um hvernig fyrirtæki geti best virkjað nýsköpun innan fyrirtækja sinna með góðu jafnvægi aðskilnaðar og samþættingar mismunandi deilda.

„Nýsköpun snýst ekki bara um vöruframboð. Fyrirtæki sem vill standa vel að vígi í framtíðinni þarf að vera vakandi gagnvart tvenns konar nýjungum; nýrri tækni eða vörum annars vegar og nýjum viðskiptalíkönum hins vegar. Ný tækni eða vörur leiða oftar en ekki til hraðra og dramatískra breytinga,“ bendir Björn Brynjúlfur á og tekur svo dæmi af annarri grein afþreyingariðnaðarins sem vaxið hefur mikið síðustu ár.

„Ég mun örugglega ekki fara mikið í bíó á næstunni, en á móti kemur að af nægu er að taka í streymisveitunum. Þar er metnaðarfull kvikmyndagerð í gangi og fjölmargar tilraunir eru nú gerðar með að búa til nýja þætti, kvikmyndir og heimildamyndir sem fanga ímyndunaraflið. Netflix, Amazon, Hulu, HBO og Apple munu til dæmis fjárfesta 25 milljörðum dollara á árinu í að búa til nýtt efni, oftast nær frá grunni.“

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á vef Viðskiptablaðsins.