Seðlabanki Íslands segir að hnökrar séu að myndast í miðlunarferli peningastefnunnar í nýju riti Peningamála sem kom út í dag.

Seðlabanki Íslands bendir á að þrátt fyrir að stýrivextir hafi hækkað undanfarið þá hafi inlendir langtimaskuldabréfavextir lækkað töluvert á sama tíma. Þrátt fyrir að áhrifin sjáist enn einungis takmarkað á almennum vaxtakjörum heimila og fyrirtækja þá er ekki ólíklegt að lækkun langtímavaxta muni smám saman smitast út í kjör þeirra.

Þessi lækkun langtímavaxta er rakin til aukins innflæðis fjármagns, sem hefur lækkað líftímaálag á skuldabréfamarkaði, þ.e. vaxtaálagsmun milli langtíma- og skammtímaskuldabréfa.

Þessi þróun gerir Seðlabankanum erfitt fyrir að ná fram aðhaldi á innlendum vöxtum, en miðlun peningastefnunnar færist þá í auknu mæli frá vaxtastigi yfir í gengi krónunar.

Viðskiptablaðið fjallaði um málið nýlega en þar kom fram að á ýmsa mælikvarða virðast stýrivaxtahækkanir Seðlabankans ýmist ekki hafa tilætluð áhrif eða vera of hófstilltar. Þróun ávöxtunarkröfu og eignaverða benda þó ekki eindregið til þess að stýrivaxtahækkanirnar hafi haft tilætluð áhrif. Umfjöllun Viðskiptablaðsins má nálgast hér.