Hræringar á mörkuðum undanfarið hafa enn frekar afhjúpað þá miklu gjá sem er á milli Frakka og Þjóðverja þegar kemur að peningamálum. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hefur gagnrýnt Seðlabanka Evrópu harkalega fyrir að lækka ekki stýrivexti mitt í lausafjárþurrðinni. Sarkozy hefur verið einn háværasti gagnrýnandi evrópska seðlabankans undanfarin misseri og hefur forsetinn talað fyrir því að tekið verði meira tillit til hagvaxtar við framkvæmd peningamálastefnunnar - ekki eingöngu verðstöðugleika. Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri, svaraði gagnrýninni um helgina varði ákvörðunina um að halda vöxtum óbreyttum á síðasta vaxtarákvörðunardegi bankans. Trichet gagnrýndi jafnframt hagstjórn í Frakklandi og sagði of mikil umsvif ríkisins græfi undan samkeppnisstöðu hagkerfisins.

Gagnrýni Sarkozy náði nýjum hæðum í síðustu viku þegar hann sakaði stjórn evrópska seðlabankans um aðgerðaleysi á meðan að hagkerfið "sykki". Í sjónvarpsviðtali á fimmtudag ítrekaði hann rétt sinn til þess að gagnrýna bankann og lét í ljós undrun sína yfir því að stjórnendur bankans hefðu ekki lækkað stýrivexti líkt og kollegar þeirra í Bandaríkjunum vegna þeirra hræringa sem hefðu átt sér stað á mörkuðum. Ummælin vöktu töluverða athygli enda ekki algengt að þungavigtarmenn á vettvangi evrópskra stjórnmála gagnrýni bankann á opinberum vettvangi með jafn eindregnum hætti. Fréttaskýrendur leiða að því líkum að Angela Merkel hafi haft Sarkozy í huga þegar hún sagði á fimmtíu ára afmæli Seðlabanka Þýskalands á föstudag að hún myndi standa vörð um sjálfstæði Seðlabanka Evrópu og koma í veg fyrir allar tilraunir til þess að beita hann pólitískum þrýstingi. Þýski seðlabankinn var annálaður fyrir sjálfstæði og ábyrgð á meðan Þjóðverjar ráku eigin peningamálastefnu og stjórnvöld þar í landi gerðu á sínum tíma kröfu um sjálfstæði seðlabanka að forsendu fyrir þátttöku í myntsamstarfinu.

Hægt er að leiða líkum að því að pólitísk ókyrrð um evruna muni vara áfram. Á sama tíma og gengi gjaldmiðilsins hefur aldrei verið sterkara gagnvart helstu gjaldmiðlum er hagvöxtur lítill í Frakklandi og atvinnuleysi að sama skapi mikið. Ólíklegt þykir að Sarkozy láti af því að mæla fyrir gengisstefnu sem styður við bakið á útflutningsatvinnuvegum á meðan að ástandið er með þessum hætti. Franski forsetinn þarf jafnframt að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum efnahagsumbótum. Stjórnmálaskýrendur telja að skili þær ekki skjótum árangri muni pólitískur stuðningur við þær þverra og því kunni Frökkum að reynast enn erfiðara að uppfylla þau skilyrði evruaðildar sem takmarka fjárlagahalla. Frönsk stjórnvöld hafa legið undir ámæli vegna þess hversu oft fjárlagahallinn hefur reynst meiri en reglur myntsamstarfsins kveða á um. Sarkozy hefur lýst því yfir að hann geri ráð fyrir að hægt verði að koma böndum á hallann árið 2010 en að hann geti ekki tryggt að það verði fyrr en árið 2012. Auk ýmissa umbóta gera efnahagsáætlanir forsetans ráð fyrir skattalækkunum sem er talið að muni kosta 11 milljarða evra.

Sarkozy er enn sem komið er einangraður með skoðun sína um áherslur við framkvæmd peningamálastefnu evrópska seðlabankans, en fjármálaráðherrar aðildarríkjanna lýstu yfir eindregnum stuðningi við sjálfstæði hans á fundi í Portúgal á dögunum. Þrátt fyrir það telja sérfræðingar það óhjákvæmilegt að ástand efnahagsmála hafi áhrif á framtíðarhorfur hinnar sameiginlegu myntar, ekki síst vegna vægis franska hagkerfisins í Myntbandalaginu.