„Fréttastofa Ríkisútvarpsins heldur sínu striki þó að fréttir hafi verið sagðar af því að skipt hafi verið um yfirmenn stofnunarinnar," segir í Staksteinum Morgunblaðsins í dag. Fyrir skömmu tók Rakel Þorbergsdóttir við fréttastjórastöðunni eftir að Óðni Jónssyni hafði verið sagt upp störfum.

Í Staksteinum, sem eru aldrei skrifaðir undir nafni, er gerð athugasemd við að fréttastofa RÚV hafi í hádegisfréttum í gær unnið frétt úr grein sem Indriði H. Þorlákssonar skrifaði um veiðigjaldafrumvarpið í vefritið Herðubreið. Sérstaklega er fundið að því að hann hafi aðeins verið titlaður fyrrverandi ríkisskattstjóri í frétt RÚV en ekki minnst á að hann hafi um tíma aðstoðað Steingrím J. Sigfússon, þegar hann var ráðherra.

„Umræddur aðstoðarmaður sat þétt við hlið Steingríms alla hans ráðherratíð og vann ötullega að öllum skattahækkunum vinstristjórnarinnar, sem voru ófáar, og þótti aldrei nóg að gert í þeim efnum."

„Og hvernig skyldi nú Ríkisútvarpið, sem ber lögum samkvæmt að „[s]tunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku", „ [v]era til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð"og „[v]era óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum" hafa kynnt þennan aðstoðarmann vinstristjórnarinnar til sögunnar í frétt sinni"

„Jú, hann var ítrekað og eingöngu kynntur sem Indriði H. Þorláksson, „fyrrverandi ríkisskattstjóri". Ekki orð um að þarna færi annar af helstu skattheimtumönnum vinstristjórnarinnar. Ekki eitt orð."