Svo gæti farið að kvikmyndaframleiðandinn Warner Bros færi tökustað myndarinnar Hobbitinn frá Nýja Sjálandi vegna verkfalls leikara. Verkefnið er metið á um 500 milljónir dala, jafnvirði rúmlega 56 milljarða króna.

Í frétt Bloomberg segir að ef tökur færist annað myndi það valda þungu höggi á ferðamannaiðnað landsins en fræg eru áhrif Hringadróttinssögu á ferðamannaiðnaðinn í landinu. Kvikmyndirnar byggðar á bókum J.R.R. Tolkien  voru teknar upp á Nýja Sjálandi og aðdáendur flykktust að til að skoða tökustað.

Warner Bros leita nú að nýjum tökustað. Efnahagsleg áhrif Hringadróttinssögu á Nýja Sjálandi eru metin á um 261 milljarð dala á þriggja ára tökutímabili frá 2000-2002. Því er ljóst að mikið er undir en Peter Jackson, leikstjóri Hringadróttinssögu, leikstýrir einnig Hobbitanum sem verður raunar í tveimur hlutum.