Evrópudómstóllinn hefur staðfest að Hoek Loos NV, dótturfyrirtæki hins þýska Linde AG þurfi að greiða 12,6 milljónir evra (ríflega 1,2 milljarðar króna) í skaðabætur fyrir brot á reglum um verðsamráð. Hoek Loos hafði áfrýjað ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB þar sem félagið taldi sektina óhóflega háa, með tilliti til þeirra sektagreiðslna sem önnur félög hafa þurft að inna af hendi í sambærilegum málum.

Rétturinn hafnaði röksemdafærslu fyrirtækisins og taldi að sanngjörnum aðferðum hefði verið beitt við ákvörðun skaðabótanna. Af þeim sjö fyrirtækjum sem voru sökuð um að hafa haft með sér verðsamráð í Hollandi á árunum 1993 til 1997 við verðlagningu á lækninga- og iðnaðargasi fékk Heok Loos hæstu sektina.

Sænska félagið AGA AB var sektað um 3,15 milljónir evra, hið franska L'Air Liquide SA um 3,64 milljónir evra og Air Products and Chemicals Inc. sem staðsett er í Pennsylvaníu var sektað um 2,37 milljónir evra.

Hefði nýjum viðmiðum sem birt voru í liðinni viku verið beitt við ákvörðun sektarinnar hefðu fyrirtækin að öllum líkindum fengið hærri sektir. Yfirvöld í Brussel höfðu af því nokkrar áhyggjur að þær sektir sem áður höfðu verið lögð á fyrirtæki sem stunduðu verðsamráð hefðu ekki nægileg fælingaráhrif. Því var ákveðið að beita hærri sektum í þeim verðsamráðsmálum sem upp kunna að koma í framtíðinni.