Breska verslunarkeðjan House of Fraser hefur selt verslunarhúsnæði sitt í vesturhluta Edinborgar í Skotlandi fyrir 20 milljónir punda, sem samsvarar um 2,7 milljörðum króna, segir í frétt skoska dagblaðsins The Herald.

Baugur á í yfirtökuviðræðum við House of Fraser og hefur gert óformlegt kauptilboð í félagið að virði 351 milljón punda, sem nemur um 47 milljörðum króna. Búist er við að Baugur geri formlegt tilboð í House of Fraser í næstu viku þegar áreiðanleikakönnun er lokið.

Í frétt The Herald segir að talið sé að Baugur hafi áhuga á að flytja House of Fraser frá vesturhluta Edinborgar og einbeita sér að rekstri Jenners-verslunarkeðjunnar, sem er staðsett þar, en House of Fraser keypti Jenners í fyrra.

Talsmaður House of Fraser staðfesti söluna og sagði að fyrirtækið hefði gert langtíma leigusamning við kaupandann. Ekki hefur komið fram hver kaupandinn er, en Baugur hefur fjárfest í verslunarhúsnæði með Bank of Scotland og skoska auðkýfingnum Sir Tom Hunter í gegnum sameiginlegt fasteignafélag þeirra, LXB.