Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka Fjárfesta hefur höfðað mál gegn fyrrverandi stjórn Glitnis vegna starfslokasamnings bankans við Bjarna Ármannsson, fyrrverandi forstjóra Glitnis.

„Ég er hluthafi í félaginu og geri kröfu um að vera jafn settur og Bjarni hvað varðar viðskipti við bankann,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Viðskiptablaðið en Vilhjálmur krefur stjórn bankans um 2 milljónir króna vegna kaupa bankans á hlutum Bjarna.

„Þessi bréf voru keypt á yfirverði en hann er samt bara hluthafi eins og ég. Ég tel að allir hluthafar eigi að hafa sama rétt gagnvart stjórn bankans,“ segir Vilhjálmur sem telur að engin heimild sé í lögum fyrir slíkum aðgerðum.

Fyrrverandi stjórn Glitnis keypti bréf af Bjarna Ármannssyni 29 krónur fyrir hvern hlut en sama dag, 30 apríl var gengi bréfa í félaginu 26,6 krónaur.