Fyrirtaka í máli Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Hugins ehf. gegn íslenska ríkinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, en útgerðirnar höfðuðu málið til viðurkenningar á bótaskyldu ríkisins vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um úthlutun makrílkvóta árið 2011. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar segir að fyrirtækin telji sig eiga rétt á bótum vegna ákvörðunar ráðherrans um að ráðstafa aðeins hluta heildarmakrílaflans til skipa sem höfðu samfellda veiðireynslu frá árunum 2008 til 2011. Telja þau sig hafa uppfyllt lagaskilyrði um samfellda veiðireynslu og því hafi ráðstöfun ráðherra verið ólögleg, þar sem honum hafi borið að taka tillit til veiðireynslu skipanna og deila út kvóta í samræmi við lagaákvæði um takmörkun veiða á deilistofnum.

Í Morgunblaðinu segir að lögmenn útgerðanna hafi lagt fram beiðni um skiptingu sakarefnis við fyrirtökuna í gær, þannig að fyrst yrði dæmt um hvort háttsemi ráðherrans hefði verið saknæm og ólögleg og síðar hvort háttsemin hefði valdið útgerðunum tjóni. Dómari hafnaði því og óskuðu útgerðirnar eftir fresti til að afla matsgerðar um tjónið. Málið verður tekið fyrir 3. september næstkomandi.