Bandaríska tímaritið GQ tók sérstaklega fram í langri umfjöllun um Ísland í febrúarhefti sínu að ION Adventurehótelið á Nesjavöllum væri besti staðurinn á landinu til að gista á.

ION Adventure Hotel, rétt utan Reykjavíkur, mun gera ferðina stórkostlega, jafnvel þótt veðrið sé ömurlegt.“ Svona hefst umfjöllun bandaríska mánaðarritsins GQ, sem áður stóð fyrir Gentlemen´s Quarterly, eða fjórðungsrit herramannsins, um Ísland. Tímaritið, sem starfað hefur frá árinu 1931, er með mikla útbreiðslu, og tryggan kúnnahóp, sérstaklega meðal karlmanna með dýrari smekk.

Hefur það stundum verið sagt höfða til metrómannsins svokallaða sem kannski má merkja af skemmtilegum lýsingum blaðamannsins af öðrum ferðamönnum um að þeir litu út eins og líf þeirra hlyti að vera óendanleg fjallganga eða þá að þeir væru að koma frá vegan-punk hátíð þar sem allra veðra væri von.

Sigurlaug Sverrisdóttir, eigandi ION hótelanna, segir að svona auglýsingu sé ekki hægt að kaupa. „Hún myndi kosta meira en ég hefði efni á,“ segir Sigurlaug og bendir á að þetta sé eina hótelið og í raun eini áfangastaðurinn sem sé sérstaklega nefndur á nafn í greininni sem tekur yfir um fimm blaðsíður.

„Ég held að fólk átti sig ekki á því hve mikilvægt það er fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar að fá svona umjöllun. Svipað kom fyrir fljótlega eftir að við hófum rekstur, en það var árið 2014, þegar heilsíðugrein birtist í New York Times sem var svakalega góð auglýsing fyrir okkur. Þá eins og nú mættu blaðamennirnir án þess að láta vita af sér, áttu reyndar pantað herbergi, en við vissum ekkert fyrr en við sáum greinina.“

Allt frá árinu 2015 höfum við verið með um 85% nýtingu á hótelinu yfir allt árið, en við erum sterk á veturna vegna norðurljósanna. Fólk sækir í að koma hingað í veturinn, hér er engin ljósmengun enda erum við alveg inni í landi, en það eru helst apríl og maí og svo aftur október og nóvember sem eru rólegri.“ Sigurlaug er þó sérstaklega ánægð með að fá þann kúnnahóp sem er helsti markhópur GQ tímaritsins. „Metrókarlmenn eru mjög góður kúnnahópur, þeir eyða miklu og kunna að tríta sig vel.“

Áður starfsmannahúsnæði OR

ION Adventure-hótelið á Nesjavöllum er í gömlu starfsmannahúsnæði Orkuveitunnar, sem Sigurlaug Sverrisdóttir, eigandi hótelsins, lét byggja við, en húsnæðið er nokkru fyrir ofan Adrenalíngarðinn sem margir kannast við.

„Við kaupum húsnæðið af Orkuveitunni árið 2011, en það var þá um þúsund fermetrar að stærð, en síðan erum við búin að stækka það um aðra þúsund fermetra,“ segir Sigurlaug en hún segir að mikið sé lagt í hótelið. „

Við erum með 44 herbergi hér, spa og sérstakan Norðurljósabar sem gefur gott útsýni yfir Hengilsvæðið. Einnig rekum við ION City hótelið á Laugavegi 28, en þar eru 18 herbergi auk veitingastaðarins Sumac. Nýlega tókum við svo yfir rekstur átt lúxusíbúða á Laugavegi sem við erum að færa undir nafn ION.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .