*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 20. júní 2013 09:57

Höfðatorg metið á næstum 14 milljarða

Íslandsbanki hefur auglýst Höfðatorg til sölu. Skuldir félagsins voru leiðréttar um 15 milljarða árið 2011.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Hörður Kristjánsson

Höfðatorg við Borgartún var um síðustu áramót metið á 13,7 milljarða króna samkvæmt bókfærðu verði HTO ehf, félaginu sem heldur utan um rekstur hússins. Eins og fram kom á vb.is í morgun hefur Íslandsbanki auglýst félagið og bygginguna til sölu og rennur tilboðsfrestur út 3. júlí næstkomandi.

Skulduðu milljarða

Byggingarisinn Eykt reisti Höfðatorg á sínum tíma. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um stöðu Eykar vorið 2010. Þar kom m.a. fram að móðurfélag Eyktar og og ellefu dótturfélög þess skulduðu samtals 44 milljarða króna í árslok 2008. Eigið fé samstæðunnar var neikvætt um samtals 19,3 milljarða króna. Öll félögin utan Eyktar voru með neikvætt eigið fé. Mestar voru skuldirnar vegna Höfðatorgs ehf, sem hélt  utan um Höfðatorgsbygginguna. Þær námu 19,3 milljörðum króng var eigið fé félagsins neikvætt um 9,8 milljarða króna. Rúmlega tíu milljarðar króna voru á gjalddaga á árinu 2009.

Með milljarð í tekjur

Íslandsbanki tók rekstur Höfðatorgs yfir að mestu  í desember árið 2011 og var bankinn skrifaður fyrir 72% hlut í félaginu í síðasta ársreikningi. Afganginn á féalgið Mókollur, félag Eyktar. Félagið hefur skilað ársreikningi fyrir síðasta ár. Þar kemur fram að staðan hafi breyst til batnaðar. Hagnaður Höfðatorgs ehf (nú HTO ehf) nam 1,2 milljörðum króna í fyrra samanborið við 11,8 milljarða króna hagnað árið 2011. Rekstrartekjur námu tæpum 1,1 milljarði króna samanborið við um 980 milljónir árið 2011. Afkoma ársins 2011 litast nokkuð af skuldaleiðréttingu félagsins. Hún nam 15 milljörðum króna það árið en var engin í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu vegna afkomunnar í fyrra að eignir námu 15 milljörðum króna og var bókfært eigið fé félagsins þrír milljarðar króna um áramótin síðustu. Fjárfestingareignir voru bókfærðar á 13,7 milljarða. Í uppgjörinu segir að fjárfestingareignir eru langstærsti hluti eigna félagsins. Þær eru í uppgjörinu færðar á gangvirði sem er reiknað út með núvirðingu á framtíðarsjóðsflæði sem áætlað er að fjárfestingaeignirnar muni skila. Við núvirðingu er notast við vegið meðaltal fjármagnskostnaðar sem byggir á væntri ávöxtunarkröfu eigin fjár annars vegar og markaðsvöxtum lánsfjár hins vegar. Þróun fjármagnskostnaðar er því mikilvæg forsenda varðandi matið og getur haft veruleg áhrif til hækkunar/lækkunar á verðmæti eignanna og skýrir hagnað ársins 2012 að fullu.

Stikkorð: Eykt Höfðatorg