*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 16. janúar 2017 10:45

Höfði með 73% markaðshlutdeild

Markaðshlutdeild Höfða, sem er í eigu Reykjavíkurborgar 73% í útboðum Reykjavíkurborgar á árunum 2008 til 2016.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Malbikunarstöðin Höfði hf. sinnir framleiðslu og lagningu malbiks hérlendis. Stjórn höfða er pólitísk skipuð og í henni sitja fulltrúar stjórnmálaflokka sem eiga sæti í borgarstjórn og fyrirtækið er að fullu í eigu Reykjavíkurborgar. Markaðshlutdeild Höfða nam 24% í útboðum Vegagerðarinnar en 73% í útboðum Reykjavíkurborgar á árunum 2008 til 2016. Þetta kemur fram í grein Viðskiptaráðs um malbikunarstöðina Höfða.

„Markaðshlutdeild fyrirtækisins er því þreföld samanborið við önnur verkefni þegar kemur að verkefnum fyrir eiganda sinn,“ er einnig tekið fram í greinina. Viðskiptaráð telur að Reykjavíkurborg ætti að selja Malbikunarstöðina Höfða. „Með eignarhaldi á fyrirtækinu skapar borgin hagsmunaárekstur sem grefur undan frjálsri samkeppni í atvinnugreininni. Þá skapar atvinnureksturinn áhættu fyrir íbúa borgarinnar, sem taka á sig sveiflur í verðmæti fyrirtækisins eftir því sem aðstæður þess breytast. Eignarhald borgarinnar á Höfða er því ósamrýmanlegt sjónarmiðum um heilbrigða samkeppni og hagkvæma opinbera þjónustu,“ er einnig tekið fram.

Beggja megin borðsins

Höfði rekur grjótmulningsstöð og tvær malbikunarstöðvar, leggur út malbik og annast einnig hálkueyðingu og snjómokstur. „Á árunum 2008–2016 stóð Reykjavíkurborg fyrir 15 útboðum á malbiksyfirlagningum og var tilboð Höfða samþykkt í 11 tilvikum, eða 73% tilfella. Í einu tilviki af 15 bauð Höfði ekki í verkið. Árið 2016 er Höfði það fyrirtæki sem sinnir malbiksyfirlagningum og leggur til búnað í snjómokstri Reykjavíkurborgar eftir að tilboð þess í viðkomandi útboðum var samþykkt,“ er tekið fram í samantekt VÍ á starfsemi fyrirtækisins.

Höfði hefur einnig tekið þátt í útboðum Vegagerðarinnar. Ef litið er til áranna 2008 til 2016 voru haldin 21 útboð á vegum Vegagerðarinnar sem vörðuðu lagningu malbiks. Af þeim framkvæmdi Höfði fimm þeirra, eða 24%.

Í úttekt Viðskiptaráðs er einnig tekið fram: „Mikilvægt er aðilar á samkeppnismarkaði keppi á jafnræðisgrundvelli. Staða fyrirtækja er hins vegar óumflýjanlega ólík þegar verkkaupi og einn bjóðenda er sami aðilinn. Það bætir enn síður stöðuna þegar stjórnarmaður fyrirtækisins er jafnframt borgarfulltrúi í Reykjavík líkt og jafnan á við í tilfelli Höfða. Hér gildir einu hvort farið sé eftir lögbundnum útboðsleiðum. Á meðan Höfði er í eigu Reykjavíkurborgar er ekki hægt að tryggja jafnræði á þessum samkeppnismarkaði.“