Dræm þátttaka í lokagjaldeyrisútboði Seðlabankans má rekja til þess að nokkrir bandarískir fjárfestingasjóðir vildu ekki taka óhagstæðara gengi en 165 krónur fyrir evruna. Kemur þetta fram í frétt DV um málið.

Segja ólögmæta eignaupptöku

Þessir sjóðir sem eiga aflandskrónur fyrir um 150 milljarða hafa skilað inn kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna laga um aflandskrónueignir sem samþykkt voru 23. maí síðastliðinn. Er það á þeirri forsendu að frumvarpið feli í sér ólögmæta eignaupptöku og brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Lee Bucheit, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í þessum málum, hefur þvert á móti sagt að hingað til hafi aflandskrónueigendur einmitt fengið sérmeðferð þar sem þeir hafi verið þeir einu sem hafi haft kost á því á undanförnum árum að selja krónur í skiptum fyrir gjaldeyri.

Það hafi þeir getað gert í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans, en núna hefðu íslensk stjórnvöld tekið ákvörðun um að röðin væri komin að því að hleypa út innlendum aðilum. Á meðan það væri að klárast þyrftu þeir sem ekki kusu að taka þátt í lokaútboðinu að lúta því að vera settir til hliðar, og geyma peninga sína á vaxtalitlum reikningum hér innanlands.

Gaf framkvæmdastjórinn óraunhæfar væntingar?

Hvers vegna sjóðirnir þóttust geta vænst þess að fá útboðsgengi sem væri um 15% lægra en skráð gengi í stað lágmarksins sem tiltekið var í útboðinu uppá 190 krónur eða 27% lægra er erfitt um að segja. Hins vegar er ljóst að Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika Seðlabankans lýsti þeirri persónulegu skoðun sinni yfir á lokuðum fundi í apríl síðastliðnum að miða mætti við gengið 160 til 170 krónur, að því er segir í frétt DV.

Á fundinum voru meðal annars starfsmenn Kviku fjárfestingarbanka sem hafa átt í nánum samskiptum við stærstu eigendur aflandskróna og því mátti vera ljóst að þessi skoðun eins æðsta stjórnenda Seðlabankans myndi berast þeim segir í frétt DV um málið .

Hættir störfum hjá Seðlabankanum

Samkvæmt heimildum DV vöktu þessi ummæli litla hrifningu þeirra sem unnu að undirbúningi gjaldeyrisútboðsins þar sem vænst var að hægt yrði að losna við 320 milljarða aflandskrónueignir. Var þetta talið geta haft skaðleg áhrif á væntingastjórnun stjórnvalda í aðdraganda útboðsins.

Hefur Sigríður ákveðið að láta að störfum hjá bankanum 1. október næstkomandi en henni hefur boðist starf hjá Yale Háskólanum í Bandaríkjunum við rannsóknir og kennslu.