Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,2% milli maí og júní. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans .

Verð á fjölbýli lækkaði um 0,5% en verð á sérbýli hækkaði um 2,5%. Hækkunin er býsna mikil milli mánaða hvað sérbýli varðar, eða sú mesta síðan í mars 2017. Talsvert flökt getur þó verið á verðlagi milli mánaða, sér í lagi þegar fáir samningar eru undir.

Ef litið er til þróunar á íbúðaverði á öðrum ársfjórðungi í heild sinni, þá hækkaði íbúðaverð um um 3,6% milli ára sem er 0,2 prósentustiga meiri hækkun en mældist milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs. Íbúðaverð hefur haldist nokkuð stöðugt og hefur sem mest hækkað um tæpt prósentustig milli mánaða það sem af er ári.

Hagstofan birti á dögunum bráðabirgðatölur um flutninga fólks til og frá landinu á öðrum ársfjórðungi og er greinilegt að útbreiðsla Covid-19-faraldursins hefur þar haft áhrif. Mun færri íslenskir ríkisborgarar fluttu af landi brott og að sama skapi fluttu mun færri erlendir ríkisborgarar til landsins en oft áður á þessum tíma árs. Þessi niðurstaða gæti haft áhrif á eftirspurn eftir húsnæði og þar með verðmyndun á markaði.