*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 12. júlí 2020 16:05

Hóflega bjartsýnn á haustið

Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri og annar eigenda Jómfrúarinnar, segir að það hafi aldrei komið til þess að loka hafi þurft staðnum alveg.

Magdalena A. Torfadóttir
Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri og annar eigenda Jómfrúarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri og annar eigenda Jómfrúarinnar, segir að það hafi aldrei komið til, jafnvel þegar COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst að loka staðnum alveg. „Það sem við gerðum er að við fórum að bjóða fólki í ríkari mæli upp á heimsendingar. Hingað til höfðum við bara verið með fyrirtækjaþjónustu og vorum mikið í að senda mat til fyrirtækja og stofnana en í COVID tókum við þá ákvörðun að bjóða hinum almenna borgara líka upp á þessa þjónustu.“

Hann bætir við að það að bjóða upp á þessa þjónustu hafi gefist einstaklega vel og staðnum hafi tekist að halda í 45% af tekjunum sínum. „Við buðum fólki upp á að koma og sækja og gerðum það fimmtudaga til sunnudaga, en við höfðum lokað restina af vikunni. Þessi þjónusta okkar og hlutabótaleið stjórnvalda er það sem hélt okkur gangandi yfir erfiðasta hjallann.“ Jakob segir að frá því að Jómfrúin var opnuð aftur, 4. maí síðastliðinn, hafi reksturinn verið á pari við það sem hann var í fyrra en þó sjái hann ekki jafnmikið af erlendum ferðamönnum eins og vanalega. 

„Sögulega séð hefur Jómfrúin verið Íslendingastaður og hafa því flestir af okkar viðskiptavinum verið Íslendingar. En það hefur samt verið þannig yfir sumartímann að um 30% af okkar viðskiptavinum hafa verið erlendir ferðamenn. Þeir hafa ekki enn látið sjá sig í sumar en það má segja að innlendi markaðurinn sé sterkari fyrir vikið.“

Jakob segir að það liggi öðruvísi stemning í loftinu sökum þess hversu snemma barirnir loki. „Það er allt öðruvísi stemning núna. Við sjáum að fólk er kannski að koma til okkar milli þrjú og fimm á laugardögum og er komið í röðina á B5 klukkan níu. Við höfum líka fundið fyrir að fólk er að gera vel við sig seinnipartinn og fyrir svona tveimur vikum þegar veðrið var mjög gott var fólk farið að dansa á okkar árlegu sumarjazztónleikaröð. Við höfum nú haft opið í um 25 ár en aldrei séð viðlíka stemningu.“

Jakob segir að það myndi koma sér afar illa fyrir veitingamenn ef önnur bylgja af COVID riði yfir. „Svo við tölum bara tæpitungulaust þá er mest að gera hjá okkur á Jómfrúnni í nóvember og desember. Þeir mánuðir eru í algjörum sérflokki og meðan á þeim stendur erum við að velta um það bil þriðjungi ársveltunnar. Þannig það væri algjört neyðarástand ef þessi seinni bylgja af veirunni myndi koma á þeim tíma. En annars er ég bara hóflega bjartsýnn á sumarið og vona það besta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér