Heildarvelta með hlutabréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 2,7 milljörðum króna í dag og úrvalsvísitalan hækkaði um 0,78%. Krónan styrktist um um það bil 1% gagnvart helstu viðskiptamyntum. Flest félög hækkuðu í viðskiptum dagsins, en engar afgerandi breytingar voru á gangvirði skráðra félaga.

Bréf Sýnar hækkuðu mest í viðskiptum dagsins, um 3,55% í 182 milljón króna viðskiptum. Næst komu Reginn með 3,43% í 137 milljóna viðskiptum og Eik með 2,95% hækkun í 230 milljónum.

Aðeins fimm félög lækkuðu, en þar af féllu bréf Icelandair mest, um 2,5% í 172 milljóna viðskiptum, síðan 1,44% lækkun Kviku í 228 milljónum og 1,23% lækkun Eimskipa í litlum 400 þúsund króna viðskiptum.

Marel var veltukonungurinn eins og svo oft áður með 358 milljón króna veltu, sem þó hreyfði lítið sem ekkert við bréfum félagsins þegar upp var staðið, en þau hækkuðu um 0,16%. Næstmest velta var með bréf Festis, 269 milljónir króna, sem skiluðu félaginu 1,51% hækkun, og Reitir hrepptu þriðja sætið með 2,65% hækkun í 256 milljóna veltu.

Krónan styrktist um 0,96% gagnvart evru í dag, 1,05% gagnvart Bandaríkjadal, og 0,9% gagnvart sterlingspundinu.