*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 16. nóvember 2013 15:29

Hóflegar launahækkanir skila hagvexti

Á fundi með aðilum vinnumarkaðarins í síðustu viku færðu forsvarsmenn Seðlabankans rök fyrir ráðgjöf sinni um hóflegar launahækkanir.

Ritstjórn
Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur.
Haraldur Guðjónsson

Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem birtist í síðustu viku í kjölfar vaxtaákvörðunar, mátti merkja áhyggjur nefndarmanna af áhrifum launahækkana umfram verðbólgumarkmið, eða 2,5%. Í verðbólguspá Seðlabankans sem birtist í nóvemberútgáfu Peningamála er gert ráð fyrir launahækkunum á bilinu 3,7- 4,4% á næstu árum, eða talsvert umfram verðbólgumarkmið. Bankinn byggir þá spá sína á sögulegri reynslu af kjarasamningum. Peningastefnunefndin hefur lýst því yfir að ef launahækkanir verða í samræmi við núverandi spá bankans er líklegt að vextir bankans hækki í framtíðinni. Launahækkanir í samræmi við verðbólgumarkmiðmyndu að öðru óbreyttuþó leiða til þess að verðbólga myndi hjaðna hraðar en ella og þar af leiðandi færi vaxtastig lækkandi.

Raunlaun lækka tímabundið en hækka til lengdar
Á fundi með aðilum vinnumarkaðarins í síðustu viku færði aðalhagfræðingur Seðlabankans, Þórarinn G. Pétursson, rök fyrir því hvers vegna bankinn teldi 2% nafnlaunahækkunhóflega niðurstöðu kjarasamninga. Þórarinn fór yfir áhrif mismunandi launaferla á raunhagkerfið og verðbólguna og lýsti áhrifum þeirra hækkana sem Seðlabankinn teldi að svigrúm væri fyrir, þ.e. um 2%nafnlaunahækkun eða 2,5% aukningulaunakostnaðar á framleidda einingu, miðað við grunnspá bankans sem gerir ráð fyrir talsvert meiri hækkunum.

Samkvæmt mati bankans myndu hóflegri nafnlaunahækkanir leiða til 1-2% aukningu í atvinnustigi á næsta ári, umfram það atvinnustig sem yrði ráðandi ef núverandi grunnspá bankans gengi eftir. Uppsöfnuð viðbót við atvinnustigið til ársins 2016 gæti þannig orðið um 5% ef kjarasamningar myndu leiða af sér minni hækkun launakostnaðar en Seðlabankinn býst nú við. Aftur á móti yrðu raunlaun lægri árið 2014 og 2015 ef haldið yrði aftur af launakostnaði. Seðlabankinn telur þó að raunlaun færu vaxandi á ný árið 2016 og yrði kaupmáttur atvinnutekna þá orðinn 1% hærri en grunnspá bankans segir nú til um.

Vextir færu lækkandi
Aðalhagfræðingur Seðlabankans telur að minni verðbólguþrýstingur muni gera það að verkum að bankinn geti haldið vöxtum lægri en ella, og að með 2% nafnlaunahækkunum gætu vextir orðið um 1,5% lægri árið 2016 en þeir annars yrðu ef 4% árlegar launahækkanir verða að veruleika. Hóflegar nafnlaunahækkanir gætu jafnframt orðið þjóðarbúinu mjög hagstæðar en samkvæmt mati Seðlabankans gætu slíkar hækkanir leitttil þess að hagvöxtur yrði um 1-2%meiri en grunnspáin gerir nú ráð fyrir,á ári hverju næstu þrjú árin. Aukinn vöxtur á næstu árum yrði þannig knúinn áfram af aukinni atvinnu, einkaneyslu og fjárfestingu sem og lægra vaxtastigi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.