Solid Clouds varð ekki við áskriftum frá hundruð áskrifenda í ný­af­stöðnu út­boði félagsins sökum mikillar eftir­spurnar, þar með talið áskriftum frá fjölda einstaklinga. Fjórföld umframeftirspurn var í útboðinu.

Við úthlutun hluta var meðal annars horft til tímasetningar á skráningu áskrifta, samkvæmt tölvupósti sem sendur var til fjárfesta sem ekki fengu úthlutað í útboði félagsins sem hófst á mánudaginn. Á þriðjudagskvöld var tilkynnt um að félagið hefði þegar fengið boð í alla þá hluti sem voru til sölu í útboðinu en því lauk klukkan 16 á miðvikudaginn. Þeir sem skráðu sig fyrir hlut fyrir tilkynningu félagsins á þriðjudaginn fengu úthlutun en þó með umtalsverðum skerðingum.

Sjá einnig: Fjórföld eftirspurn hjá Solid Clouds

Áskriftir einstaklinga sem skráðu sig fyrir tilkynninguna á þriðjudaginn umfram 300 þúsund krónur voru jafnframt skertar niður í 300 þúsund krónur. En 300 þúsund krónur er lágmarksfjárhæð til njóta skattaafsláttar vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum, sem fjárfesting í Solid Clouds uppfyllir skilyrði um. Lágmarksboð í útboðinu var að 100 þúsund krónur en í fjárfestakynningu félagsins kom fram að leitast yrði við tak­marka ekki til­boð undir 300 þúsund krónum.

Í út­boðinu bárust til­boð að and­virði 1,8 milljarða króna í til­boðs­bók A, sem nær utan um til­boð undir 15 milljónum. Í til­boðs­bók B, fyrir til­boð yfir 15 milljónum, bárust til­boð að fjár­hæð tæp­lega 900 milljónum króna. Alls hyggst félagið safna 725 milljónum króna í útboðinu en það verður skráð á First North markaðinn þann 12. júlí.

Eftirfarandi skilaboð bárust fjárfestum sem ekki fengu úthlutun í hlutfjárútboðinu:

Vegna margfaldrar umframeftirspurnar í útboðinu varð ekki hjá því komist að hafna áskriftum mörg hundruð þátttakenda í útboðinu og skerða úthlutun verulega hjá öðrum. Þeir mælikvarðar sem stjórn Solid Clouds hf. beitti við skerðinguna byggja á hlutlægum grunni og útgangspunkturinn var sá að tryggja hagsmuni félagsins og sömu meðferð áskrifenda í sömu stöðu. Meðal þeirra þátta sem stjórn félagsins horfði til við úthlutun var tímasetning skráningar í útboðinu. Þeir sem óskað höfðu eftir áskrift áður en félagið birti tilkynningu um að áskrift hafi borist fyrir öllum hlutum útboðsins fengu þannig allir úthlutun, þó þeir hafi þurft að sætta sig við umtalsverða skerðingu áskriftar. Þá var jafnframt horft til þess að skattafsláttur vegna fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum miðast við 300.000 kr. og áskriftir einstaklinga sem höfðu skráð sig fyrir framangreint tímamark (fyrir fjárhæð umfram 300.000 kr.) voru því skertar niður í lágmark skattafsláttarins.