Eigendur 34% hlutar í ullarvinnslunni Ístex höfnuðu tilboði frá fjárfestum sem gert var í eignarhluti þeirra. Tilboðið var frá óþekktum fjárfestum sem taldir eru hafa átt fjármuni sem eru fastir hér á landi. Tilboðið var lagt fram í gegnum Virðingu. Í Bændablaðinu sem kom út í dag segir að allt bendi til að um erlenda krónueigendur hafi verið að ræða. Það var forysta sauðfjárbænda sem bað hlutabréfaeigendurna um að taka ekki tilboðinu. Hluturinn er enn til sölu.

Ístex var reist á rústu Álafoss fyrir rúmum 20 árum og er eina fyrirtækið á landinu sem tekur við ull frá  bændum. Það rekur ullarþvottastöð á Blönduósi og verksmiðju í Mosfellsbæ. Landssamtök sauðfjárbænda eiga ríflega 15% hlut í Ístex.

Eigendurnir sem höfnuðu tilboðinu og eiga 34% hlut í Ístexi eru þeir Guðjón Kristinsson, framkvæmdastjóri Ístex, Jón Haraldsson framleiðslustjóri og Viktor Guðbjörnsson, sem hefur umsjón með tæknimálum og viðhaldi Ístex. Núverandi og fyrrverandi starfsmenn eiga 13%, fjármálafyrirtæki eiga um 7% og um 1.800 núverandi og fyrrverandi ullarinnleggjendur eiga það sem út af stendur.

Í Bændablaðinu segir að heildarverðmæti Ístex sé metið á tæpar 550 milljónir króna og hlutur þremenninganna sem höfnuðu tilboðinu því metinn á 187 milljónir króna.