*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 4. júlí 2021 20:04

Höfnuðu tvöfalt hærri boðum í Borgun

Íslandsbanki hafnaði tveimur tilboðum í Borgun sem voru um tvöfalt hærri en endanlegt söluverð þegar SaltPay eignaðist alla hluti í greiðslumiðlunarfyrirtækinu.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki hafnaði tveimur tilboðum í Borgun sem voru um tvöfalt hærri en endanlegt söluverð þegar SaltPay eignaðist alla hluti í greiðslumiðlunarfyrirtækinu. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að aldrei hafi borist formlegt tilboð frá SaltPay, sem lagt hafi verið fyrir stjórn, heldur hafi félagið samið beint við Íslandsbanka.

Sem kunnugt er var Borgun seld SaltPay síðasta vor, en við undirritun kaupsamnings var miðað við að kaupverð yrði 35 milljónir evra. Þegar upp var staðið reyndist það vera 27 milljónir evra, en afsláttur var veittur af kaupverðinu sökum óvissu sem fylgdi farsóttinni. Endanlegir kaupendur voru ekki einu aðilarnir sem höfðu sýnt félaginu áhuga en heimildir Viðskiptablaðsins herma að þeir hafi aldrei sent formlegt tilboð í félagið. Þess í stað hafi þeir átt lokaða fundi með Íslandsbanka um möguleg kaup.

Kringum áramótin 2020 höfðu tvö tilboð borist í allt hlutafé Borgunar. Hið fyrra barst frá Financial Services Capital Partners LLC (FSC) í síðari hluta desember 2019. Það var óskuldbindandi tilboð sem hljóðaði upp á að greiddar yrðu 50-60 milljónir evra með reiðufé fyrir alla hluti í félaginu. Í tilboðinu kom einnig fram að kaupandi miðaði að því að hafa höfuðstöðvar félagsins áfram á Íslandi og að hann teldi að stjórnendateymi Borgunar væri í „heimsklassa“. Aðeins tækniþróun yrði flutt úr landi.

Stoðum ekki hleypt inn í ferlið

Hitt tilboðið barst í janúar 2020, frá DNA Payments GmbH. Félagið er með höfuðstöðvar í London, en fyrr í þessum mánuði lauk það 100 milljón punda fjármögnun. Samkvæmt upplýsingum um félagið eiga meira en 20 milljón færslur, fyrir yfir 600 milljónir punda, sér stað mánaðarlega í kerfum þess. Innan samsteypunnar má finna félög á borð við Optomany, 123Send og 123Hire brands. Í janúar 2020, um svipað leyti og félagið bauð í Borgun, hafði það lokið við kaup á sænska fjártæknifélaginu Zash AB.

Tilboð DNA hljóðaði upp á 55 milljónir evra. Þar af átti að greiða 28 milljónir evra við afhendingu. Síðari greiðslur voru að hluta háðar því að tekjur Borgunar hér innanlands féllu ekki um tíu prósent á tímabilinu.

Það voru ekki aðeins erlendir aðilar sem sýndu félaginu áhuga. Stoðir sendu í byrjun árs 2020 fyrirspurn um kaup á Borgun en var synjað, þar sem Íslandsbanka þótti of langt liðið á samningaviðræður við aðra aðila.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Íslandsbanki Borgun