IAG, móðurfélag breska flugfélagsins British Airways, gerði tilboð í allt hlutafé írska flugfélagsins Aer Lingus, en því hefur nú verið hafnað. Eftir að blaðið Financial Times greindi frá því að IAG væri að íhuga yfirtökutilboð hækkaði gengi hlutabréfa Aer Lingus um 14%.

Samkvæmt frétt BBC hefði írska lággjaldaflugfélagið Ryanair þurft að samþykkja tilboðið sem og írska ríkið, en báðir aðilar eru hluthafar í Aer Lingus.

Aer Lingus er álitleg fjárfesting fyrir IAG vegna þess hversu umfangsmikil starfsemi félagsins er á Heathrow flugvelli, en með kaupunum hefði IAG fengið aðgang að lendingarplássum írska félagsins þar.