Á árinu hafa nokkrir útgefendur verðbréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, og fjárfestinga- og verðbréfasjóðir greitt 29,3 milljónir króna í stjórnvaldssektir og sáttargerðir vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti og lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Stjórn FME hefur á árinu lagt stjórnvaldssektir á sjö aðila vegna brota sem áttu sér stað í fyrra. Teymi var sektað um 7,5 milljónir fyrir að greina ekki tafarlaust frá innherjaupplýsingum sem mynduðust hjá félaginu þegar niðurstöður virðisrýrnunarprófs lágu fyrir í mars 2009. FME hefur lokið tíu málum með sáttargerð þar sem sektarfjárhæðir eru að jafnaði lægri en þegar um stjórnvaldssektir er að ræða. Alls nema þær 7,7 milljónum króna.

Neituðu að gangast undir sáttargerð

Athygli vekur að sveitarfélög eiga oft hlut að máli enda eru mörg þeirra með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands. Af þeim 17 aðilum sem hafa verið sektaðir á árinu koma fjögur sveitarfélög við sögu. Reykjanesbær og Langanesbyggð fengu stjórnvaldssektir fyrr á árinu eftir að hafa hafnað sáttargerð við FME og fyrir vikið voru sektarfjárhæðir tvöfaldaðar. Langanesbyggð fékk 1.300 þúsund króna sekt en Reykjanesbær 800 þúsund krónur. Í vikunni greindi FME frá tveimur sáttargjörðum sem stofnunin gerði við sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Álftanes fyrr á þessu ári vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti. Fengu sveitarfélögin hvort um sig 400 þúsund króna sekt.

Gleyma að senda innherjalista

FME hefur víðtækar heimildir til að beita stjórnvaldssektum þar sem ekki er unnt að fara með öll brot á fjármálamarkaði til opinberrar rannsóknar og refsimeðferðar. Jafnframt getur stofnunin lokið málum aðila með sátt. Langstærstur hluti sátta tengist því að útgefendur verðbréfa, sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, hafa ekki sinnt skyldu sinni að senda FME reglulega skrá yfir innherja og tengda aðila.