*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 28. janúar 2020 17:55

Höfrungahlaup skila litlum breytingum

Forseti félagsvísindasviðs HÍ segir að ef farið verði af kröfum Eflingar muni það ýta við öðrum hópum og skila litlum breytingum.

Ritstjórn
Daði Már Kristófersson er prófessor og forseti félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.
Eva Björk Ægisdóttir

Daði Már Kristófersson forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands segir tilraunir til að breyta launum ákveðinna hópa gagnvart öðrum oft hafa leitt til tímabundins ávinnings sem smitist út um allt kerfið og deyji því út. Þetta hefur Fréttablaðið eftir honum vegna kröfugerðar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg.

Segir Daði Már það hafa því oft reynst erfitt að breyta hlutfallslegum launum milli hópa líkt og sást á tímabilinu fyrir þjóðarsáttarsamningana árið 1990 þar sem hafi verið „eilíf stökk fram og til baka sem á endanum skiluðu litlum breytingum“.

Efling hefur farið fram á um 22 til 52 þúsund króna launahækkanir ofan á 90 þúsund króna launahækkanir lífskjarasamninganna til handa starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Jafnframt hefur félagið farið fram á 400 þúsund króna desemberuppbót fyrir starfsmenn.

„Það lítur út fyrir, án þess að þekkja málavexti umfram það sem hefur komið fram í fjölmiðlum, að það muni kveikja áhuga annarra hópa á sambærilegum launahækkunum ef orðið verður við kröfum Eflingar,“ segir Daði Már.

„Reynslan er sú að þá komi til höfrunahlaups þar sem einn hópur fær leiðréttingu og þá kvikna kröfur hjá öðrum sambærilegum hópi, til dæmis hjá hópi háskólamenntaðra sem sinnir svipuðum störfum. Þannig heldur það áfram koll af kolli.“

Daði Már segir það sýna sig að kaupmáttur launa geti ekki farið út fyrir þann ramma sem framleiðniaukning hagkerfisins leyfi því umframlaunahækkanir leiði til verðbólgu. Það sé grundvallaratriði í skandinavíska módelinu sem þýði að sértækar kröfur einstakra hópa þurfi að vera hluti af heildarkröfugerð verkalýðshreyfingarinnar til að skili sér líkt og sjáist á hinum Norðurlöndunum.

„Það er hætta á því að ef einn hópur er tekinn út fyrir og ef hækkanir eru langt umfram framleiðniaukningu að það leiði til höfrungahlaups, sem aftur leiðir til verðbólgu og að enginn verði betur settur þegar upp er staðið.“

Yfir 95% þeirra 1.121 sem kusu um verkfallsboðun Eflingar, eða tæplega 60% af þeim sem höfðu atkvæðisrétt, samþykktu aðgerðirnar sem hefjast þriðjudaginn næstkomandi.

Verkfallsaðgerðir Eflingar verða sem hér segir:

  • Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
  • Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Þriðjudagur 11. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.
  • Miðvikudagur 12. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Fimmtudagur 13. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.
  • Mánudagur 17. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það.