Frystitogarinn Höfrungur III AK er nú í höfn í Reykjavík eftir velheppnaða veiðiferð. Friðrik Ingason, skipstjóri í veiðiferðinni, segir í samtali við heimasíðu Brims að heildaraflinn hafi verið 800 tonn upp úr sjó en skipið var hvort tveggja á Vestfjarðamiðum og SV-miðum.

Við fengum mjög góða ýsuveiði á Látragunni og það var alls ekki svo mikið af þorski eða öðrum fisktegundum á slóðinni. Þetta var nánast hrein ýsa og stundum þurftum við ekki að toga í nema 10-15 mínútur til að fá góðan afla. Það var mjög mikið af gullkarfa á ferðinni þegar við komum á Halann en með því að beita lagni gátum við fengið ufsa og þorsk,” segir Friðrik en hann getur þess að karfagengdin hafi orðið til þess að hrekja skipið frá veiðum á Halanum. Út af Barðinu, sem er fyrir utan Halann, hafi þeir hins vegar fengið þokkalega þorsk- og grálúðuveiði.
Síðari hluta veiðiferðarinnar vörðu skipverjar á SV-miðum.

,,Við fengum ágætan djúpkarfaafla í Skerjadjúpinu og náðum þar einum mjög góðum degi. Önnur skip voru búin að gera það gott á þessum veiðum marga daga á undan og þó við höfum rétt náð í skottið á þessari hrotu getur maður ekki verið annað en sáttur við aflabrögðin. Við vorum einnig á Fjöllunum og þar eins og svo víða er gullkarfinn að þvælast fyrir okkur. Okkur tókst þó að veiða sæmilegt magn af ufsa. Það var helst með því að draga trollið á nóttinni að okkur tókst að veiða nokkuð hreinan ufsa og forðast karfann,” segir Friðrik Ingason.