Nú styttist í að kauphallirnar opni í Nýju Jórvík og um stundarfjórðungi fyrir opnun stefndi í hófsama hækkun ef marka má framvirk viðskipti sem yfirleitt gefa góða vísbendingu um þróunina. Þannig stefnir í að Dow Jones vísitalan hækki um 0,18%, Nasdaq um 0,04% og S&P um 0,14%.

Athygli vekur að eftir því sem liðið hefur á daginn hafa vísitölurnar vestanhafs farið lækkandi í framvirkum viðskiptum og gæti það verið til marks um lækkanir þegar á líður viðskiptadaginn vestra. Slík þróun gæti jafnframt orðið til þess að hrella fjárfesta í Evrópu.

Jafnframt vekur athygli að hlutabréf Morgan Stanley-fjárfestingarbankans hafa lækkað um 3,14% í framvirkum viðskiptum.