Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics, hélt erindi á ársfundi atvinnulífsins í síðustu viku. Í erindi sínu fjallaði hann um efnahagsmál og hagstjórn á Íslandi í víðu samhengi. Á meðal þess sem kom fram í erindi hans er að Seðlabankinn ætti hugsanlega að beita bindiskyldu í meiri mæli og að hafa stýrivexti mun lægri.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Jón að það sé erfitt sé að beita bindiskyldu í stóru og flóknu fjármálakerfi, eins og til dæmis Bandaríkjunum, því erfitt sé að reikna út fyrirfram hver áhrifin af breytingu bindiskyldu verði.

„Ef þú notar svoleiðis í miklu einfaldara hagkerfi, eins og Íslandi og mörgum minni löndum, þá hefurðu miklu meiri vissu um hverjar afleiðingarnar verða. Þú getur reiknað það út fyrirfram, sem þú getur ekki gert í stærri löndum,“ segir Jón.

Virkar illa í raunveruleikanum

Seðlabankinn hefur boðað sérstakar aðgerðir til að hafa stjórn á innflæði fjármagns til landsins. Slíkum tækjum hefur verið beitt sum staðar erlendis, til dæmis í nokkrum ríkjum í SuðurAmeríku og Asíu.

Jón segir að til séu margar útgáfur af slíkum tækjum og að hann viti ekki hvað Seðlabankinn hefur í huga. Almenna hugmyndin sé sú að fjármagn megi koma inn til langs tíma, en ef það ætlar sér að vera til skamms tíma sé það hindrað eða tafið.

„Oft er það gert þannig að ef litið er svo á að peningur er skammtímafjárfesting er hann bundinn inni í Seðlabankanum vaxtalaust í kannski eitt ár. Það eru til margar útfærslur í kringum það. Þetta virkar auðvitað vel fræðilega, en þetta virkar mjög illa í raunveruleikanum, sérstaklega í hagkerfum eins og Íslandi sem er svona mikið tengt löndunum í kringum okkur. Þetta virkar betur í löndum sem eru einangraðri frá alþjóðlega fjármálamarkaðnum,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .