„Ávöxtunin er í samræmi við væntingar. Það var ekki hægt að búast við svipaðri ávöxtun og árin á undan,“ segir Valdimar Ármann, hagfræðingur hjá GAMMA. Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 6,6% á nýliðnu ári og var hún nokkuð jöfn, verðtryggða vísitalan hækkaði um 6,5% en sú óverðtryggða um 6,7%. Verðbólga var 4,2% á sama tíma. Meðaldagsvelta skuldabréfa í vísitölunni nam 9,6 milljörðum króna sem var ívið lægri en í hittifyrra. Valdimar segir gjaldeyrishöftin lita skuldabréfamarkaðinn og býst hann við svipaðri ávöxtun að öllu óbreyttu á þessu ári.

Þetta var fimmta árið í röð sem skuldabréf skila jákvæðri raunávöxtun. Valdimar segir árin eftir 2007 hafa skilað mjög góðri ávöxtun, eða tæplega 17% á ári að nafnvirði á árunum 2008 til 2011 og almennt búist við að hún myndi gefa eftir.

Íbúðalánasjóður setti strik í reikninginn

Valdimar bendir á að hefði umræðan um stöðu Íbúðalánasjóðs ekki komið upp á yfirborðið þá hefði mátt reikna með betri ávöxtun en raunin varð. Ávöxtunin náði hámarki um miðjan nóvember í fyrra en tók að lækka 21. nóvember síðastliðinn þegar staða sjóðsins komst í hámæli.

„Ef ekki hefði farið að hrykta í stoðum Íbúðalánasjóðs þá hefði ávöxtunin líklega verið eitthvað hærri, um 8% í stað tæplega 7%,“ segir Valdimar.