Fjármagnshöftin eru eitt best útfærða og best heppnaða þjóðhagsvarúðartæki sem um getur. Þetta fullyrti Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, þegar hann hélt erindi í síðustu viku um sjálfstæði seðlabanka.

Erindið byggði hann á meistaraverkefni sínu í opinberri stjórnsýslu þar sem hann skrifaði um markmið, mælikvarða og árangur fyrir sjálfstæði Seðlabanka Íslands auk greiningar á nýlegri umræðu sem átt hefur sér stað innanlands og erlendis um efnið. Þá sagði hann í erindinu að það hefði ekki síst verið vegna of mikillar verðbólgu upp úr 1970 og vangetu stjórnmálamanna til að bregðast við sem knúði á að seðlabankar voru gerðir sjálfstæðir. Árið 2001 voru svo samþykkt lög á Alþingi sem veittu Seðlabanka Íslands aukið sjálfstæði og komst bankinn þar með í hóp sjálfstæðustu seðlabanka í heiminum að sögn Stefáns.

Þá segir hann að í kjölfar þess að nefnd hefur verið skipuð um heildarendurskoðun laga um Seðlabankann auk þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi nýlega birt ábendingar til íslenskra stjórnvalda um að tryggja sjálfstæði bankans vakni óhjákvæmilega upp spurningar um framtíð sjálfstæðis Seðlabanka Íslands.

Þjóðhagsvarúð

Eftir fjármálakreppuna segir Stefán að hlutverk seðlabanka og ríkisstjórna þegar kemur að fjármálastöðugleika og þjóðhagsvarúð hafi styrkst. Þá segir hann að stærsta skrefið til að tryggja fjármálastöðugleika á Íslandi hafi verið stigið með því að beita fjármagnshöftum í kjölfar efnahagshrunsins en hann telur að beiting þeirra hafi verið „eitt best útfærða og best heppnaða þjóðhagsvarúðartæki sem um getur“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .