Ráðstafa ætti fjórðungi af hreinu innflæði til lífeyrissjóðanna til erlendra fjárfestinga, sem og viðskiptaafgangi umfram 5% af vergri landsframleiðslu, að mati þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, en í síðustu viku kom út rit eftir þá sem ber heitið Áhættudreifing eða einangrun.

Rit þeirra Ásgeirs og Hersis fjallar aðallega um lífeyrissjóðina en þeir taka einnig fyrir áhrif á efnahagslífið almennt og árétta skaðsemi fjármagnshafta fyrir atvinnulíf og lífskjör almennings til framtíðar.

Það er þeirra skoðun að opin fjármagnsviðskipti séu lykilþáttur í því að Íslendingar taki sömu efnahagslegum framförum og aðrar vestrænar þjóðir og nái sama árangri í framleiðni og nýsköpun. Stöðugleiki byggður á höftum sé einfaldlega of dýru verði keyptur. Og raunar, ef litið er til sögunnar, verði ekki séð að fjármagnshöft hafi dugað til þess að tryggja efnahagslegan stöðugleika; höftin hafi þvert á móti aukið á ójafnvægið í hagkerfinu og valdið mjög alvarlegri missetningu fjármagns á hinum fyrri haftatíma.

Í ljósi þessa leggja þeir til að afnám hafta verði hafið þegar í stað.