Við setningu gjaldeyrishafta hefði þurft að setja mikinn kraft í vinnu við peningamálastefnu Íslendinga. Sú vinna hefur gengið alltof hægt, segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarni hélt erindi á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag, þar sem fjallað var um gjaldeyrishöftin og hvort hægt sé að losa um þau.

Bjarni sagði að ekki megi útiloka að taka upp annan gjaldmiðil. En fyrst þurfi að liggja fyrir trúverðug efnahagsáætlun, hún sé ekki trúverðug ef ríkið á ekki fyrir útgjöldum sínum.

Hann sagði það í fersku minni þegar áform um að setja gjaldeyrishöft voru kynnt í þingherbergi Sjálfstæðisflokksins, sem þá var í ríkisstjórn. Á þeim tíma hafi nær engar líkur verið á að komast undan að setja á höft, vegna þeirrar óvissu sem var og alvarlegra aðstæðna.

„Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að stefnt yrði að afnámi hafta eins fljótt og auðið er og var bundið við fjárstuðningsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem átti þá að ljúka um haustið 2010,“ sagði Bjarni. Lagt var til að reglurnar kæmu til reglulegrar endurskoðunar, á að minnsta kosti sex mánaða fresti. En síðan þá hafi verið spaslað í allar sprungur haftanna og þau hert.

„Nú þykir rétt að lögfesta reglurnar, þar sem nú sé fyrirsjáanlegt að gjaldeyrishöftin verði lengur til staðar en ætlað var í upphafi.“ Bjarni líkti höftunum við bólgueyðandi lyf og sagði að þau skapi ákveðið þægindarými. Taka þurfi á undirliggjandi vandamáli og að höftin séu ekki lausn við því. Að mati nefndaráliti Sjálfstæðismanna sé ekki rétt að lögfesta löginn. Það gefi skýri skilaboð um að þau festist í sessi og geti verið stór hagstórnarmistök.