Fyrrverandi höfuðstöðvar Baugs við Túngötu eru til leigu hjá fasteignasölunni og leigumiðluninni Stakfelli. Húsið er búið að vera á skrá í um mánuð.

Það var nýtt að hluta en stendur nú autt. Húsið, sem er í raun tvær tengdar byggingar, er í heildina 518 fermetrar og leiguverðið á bilinu 1-1,2 milljónir króna á mánuði miðað við að verðið hlaupi á bilinu 2.000 til 2.400 krónur á fermetrann. Húsið er tæplega 140 ára gamalt, reist árið 1875.

Stakfell er með hús annarra útrásarvíkinga á leiguskrá. Það er hús Bakkavarar við Tjarnargötuna sem boðið var til leigu fyrir tæpum tveimur mánuðum. Margir hafa lýst yfir áhuga á því að leigja húsið en enginn búinn að skrifa undir. Verðmiðinn er á svipuðum slóðum og fyrir fyrrverandi höfuðstöðvar Baugs, litlar 1,2 milljónir á mánuði.