Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir aðspurð að flokkurinn hafi ekki þegið viðlíka styrk frá FL Group og greint var frá í gær að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þegið.

„Við höfum aldrei séð styrki til flokksins í þessum hæðum," segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því í gær að fyrirtækið FL Group, síðar Stoðir, hefði veitt Sjálfstæðisflokknum 30 milljóna króna styrk í desember 2006. Í fréttinni kom fram að skattrannsóknarstjóri hefði styrkinn m.a. til athugunar en embættið rannsakar bókhald Fl Group.

Mánuði síðar, eða 1. janúar 2007, tóku gildi lög um að stjórnmálaflokkum væri óheimilt að taka við hærri fjárstyrkjum en 300 þúsund krónum á ári frá einstökum lögaðila.

Frumvarp um málið var lagt fram á Alþingi 5. desember 2006 og voru flutningsmenn formenn stjórnmálaflokkanna. Fyrsti flutningsmaður var Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 9. desember með 42 samhljóða atkvæðum.

Gefa ekki upp styrki einstakra aðila

Þegar Sigrún er spurð hvort FL Group hafi styrkt Samfylkinguna svarar hún:  „Við gefum ekki upp styrki einstakra aðila, hvorki einstaklinga né fyrirtækja á árinu 2006. Það liggur hins vegar allt fyrir varðandi árið 2007."

Spurð hvort til standi að opinbera bókhaldið fyrir árið 2006 og árin á undan svarar hún því til að það sé ekki ákvörðun sem hún taki ein. Hún hafi ekki haft ráðrúm til að kalla saman stærri hóp til að ræða það. Það þurfi m.a. að gera í samráði við þá aðila sem þekki til lagaumhverfisins.