Met verða slegin í ríkisútgjöldum gangi kosningaloforð stjórnmálaflokkanna eftir, en þau snúast að mestu um varanlega aukningu ríkisútgjalda. Það er hins vegar hvorki efni til aukningar ríkisútgjalda né rými til skattahækkana. Þetta kemur fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA).

„Þvert á móti eru nú kjöraðstæður til að skapa svigrúm fyrir skattalækkanir með því að draga úr umsvifum ríkisins. Það eru tækifæri til að forgangsraða í rekstri ríkisins og nýta betur skattfé landsmanna,“ segir í greiningunni.

Efnahagssvið SA bendir á að þrátt fyrir að stjórnmálaflokkarnir vilji auka ríkisútgjöld séu umsvif hins opinbera nú þegar ein þau mestu meðal OECD ríkja. Þannig voru opinber útgjöld á Íslandi 40% af landsframleiðslu árið 2015, á meðan meðaltal Evrópuríkja var 36%.

Verði loforð efnd, sem hljóða upp á 50 milljarða króna útgjaldavöxt, munu útgjöld ná methæðum. Það þýði 142 þúsund krónur á mann í nýja skatta. Nánast hvergi innan OECD eru skattar hærri en á Íslandi. Þannig voru heildarskatttekjur hins opinbera (leiðrétt fyrir greiðslum til almannatrygginga) 34% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu árið 2015. Danmörk og Svíþjóð eru einu þróuðu ríkin sem eru með hærri skatta en Ísland.

Bent er á að þegar vel árar í efnahagslífinu þurfi ríkissjóður að gæta aðhalds í útgjöldum til að jafna uppsveifluna og draga úr þenslu. „Aukning ríkisútgjalda í efnahagsuppsveiflu mun óhjákvæmilega framkalla sársaukafullan niðurskurð í þeirri niðursveiflu sem kemur í kjölfarið og tekjustofnar dragast saman,“ segir í greiningunni.

Þá er einnig bent á að allar skattahækkanir munu á endanum bitna á almenningi. Skattar á fyrirtæki draga úr getu [fyrirtækja] til að hækka laun, fjölga starfsfólki og lækka verð. Skattar á fjármagnseigendur draga úr getu þeirra og vilja til fjárfestinga hér á landi sem leiðir til þess að færri störf skapast í hagkerfinu.