Peningastefna sem grundvallast á verðbólgumarkmiði, sjálfstæðri mynt og frjálsum fjármagnshreyfingum ætti vel að ganga upp á Íslandi. Til þess þurfa þó töluverðar breytingar að eiga sér stað á hlutverki Seðlabankans, að mati starfshóps um endurmat á peningastefnu Íslands. Í grófum dráttum er lagt til að Seðlabankinn fái aukin völd við að framfylgja þjóðhagsvarúðarstefnu til að fyrirbyggja kerfisáhættu í fjármálakerfinu.

Meginmarkmið Seðlabankans í dag er að stuðla að stöðugu verðlagi. Honum er jafnframt falið að stuðla að fjármálastöðugleika. Starfshópurinn leggur til að þjóðhagsvarúð verði lögð til grundvallar peningastefnunni þannig að Seðlabankinn einn beri ábyrgð á stöðugleika í fjármálakerfinu. Fjármálastöðugleiki skal jafnframt hafa forgang á verðstöðugleika ef hinu fyrrnefnda er ógnað. Ábyrgðin færist því frá Fjármálaeftirlitinu til Seðlabankans, en með því að sameina öll varúðartæki á einn stað verður ferlið frá greiningu til ákvörðunar skilvirkara.

Skipa ætti tvo aðstoðarseðlabankastjóra, á sviði fjármálastöðugleika og peningamála, sem eiga sæti í bankastjórn með seðlabankastjóra. Jafnframt ætti að fjölga ytri meðlimum í fjármálastöðugleikanefnd sem mun taka endanlega ákvörðun um beitingu þjóðhagsvarúaðrtækja, og auka ábyrgð ytri meðlima í peningastefnunefnd.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans skal áfram miðast við 2,5%, en miða skal við verðvísitölu sem ekki tekur mið af húsnæðisverði. Ástæðan er sú að núverandi peningastefna nær illa til íslenskra húsnæðisvaxta, auk þess sem eignaverð er hluti af fjármálastöðugleika. Afnema ætti innflæðishöftin í skrefum og til framtíðar ætti aðeins að beita þeim í neyð. Lagt er til að Seðlabankinn bæti gagnsæi og reglulega miðlun upplýsinga, svo sem með birtingu á mati á jafnvægisraungenginu, stýrivaxtaspáferli og fræðsluefni um peningastefnuna. Regluleg ytri endurskoðun skal fara fram á peningastefnunni á fimm ára fresti.

Loks er þörf fyrir því að afkomuregla ríkissjóðs verði leiðrétt fyrir hagsveiflunni og að nýtt vinnumarkaðslíkan verði tekið upp að norrænni fyrirmynd til þess að hagstjórnin styðji við peningastefnuna.

Starfshópurinn, sem skipaður var í mars 2017, kynnti ellefu tillögur um endurbætur á peningastefnu Íslands á blaðamannafundi á þriðjudaginn. Í starfshópnum áttu sæti þrír hagfræðingar: Dr. Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. Starfshópurinn naut einnig ráðgjafar frá erlendum sérfræðingum.

Tillögur starfshópsins verða lagðar til grundvallar við gerð breytinga á ramma peningastefnunnar samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra væntir þess að frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabankann verði lagt fram á næsta þingi.

Höfum reynt allt

Frá fullveldi árið 1918 hafa peningamál á Íslandi einkennst af þrálátum óstöðugleika og verðbólgu. Að mati skýrsluhöfunda er þó ekki að finna ástæðuna fyrir því í vali á peningastefnu eða að Íslendingar hafi ekki enn fundið þá stefnu sem hentar þeim.

„Við erum búin að vera með margar peningastefnur og erum eiginlega búin að reyna allt,“ segir Ásgeir, en frá lokum fyrri heimsstyrjaldar hafa Íslendingar gert tilraunir með fjármagnshöft, flotgengi og myntbandalag.

„Við höfum einfaldlega ekki verið að fylgja þeim leikreglum sem peningastefnan hefur krafist á hverjum tíma,“ segir Ásgeir. „Það skiptir ekki máli hvaða stefna er valin svo lengi sem leikreglunum er fylgt.“

Umræddar leikreglur snúa að hagstjórninni og viðhaldi efnahagslegs stöðugleika. Á Íslandi hefur „peningapólitík“ fyrst og fremst snúist um að möndla með gengi krónunnar með beinum eða óbeinum hætti. Þá hefur lengi skort sátt meðal vinnandi stétta um launaákvarðanir, en stöðugleiki á vinnumarkaði er undirstaða verðstöðugleika.

Skýrsluhöfundar benda á að vissulega sé Ísland smátt myntsvæði sem er áskapað ýmis sérkenni vegna landfræði, sögu og uppbyggingar efnahagslífs sem gerir stjórnun peningamála erfiða viðfangs. Bent er á að reynsla annarra Norðurlanda – hvort sem litið er til fastgengis Danmerkur, flotgengis Svíþjóðar og Noregs, eða inngöngu Finnlands í myntbandalag Evrópu – sýni að þrátt fyrir alþjóðlega smæð og útflutning sem háður er hrávörum hafi þessum ríkjum tekist að vinna úr keimlíkum vandamálum og Íslendingar. Agi í ríkisfjármálum og stöðugleiki á vinnumarkaði séu stofnanabrestir sem Íslandi sé ekki áskapað – og hægt er að breyta með góðum vilja.

„Ný hagfræðigrein“

Tillögur starfshópsins grundvallast á aðferðafræði sem kennd er við þjóðhagsvarúð (e. macroprudential measures). Þjóðhagsvarúð er skilgreind sem  eftirlit með áhættu í fjármálakerfinu í heild, samspili eininganna sem mynda það og tengslum þess við raunhagkerfið.

Beitingu þjóðhagsvarúðar er meðal annars ætlað að vinna gegn óhóflegum útlánavexti og skuldsetningu og efla viðnámsþrótt fjármálakerfisins. Til svokallaðra þjóðhagsvarúðartækja teljast meðal annars eiginfjáraukar, lausafjárreglur, bindiskylda, inngrip á gjaldeyrismarkaði, veðsetningarhlutföll, takmörk á útlán í erlendri mynt og takmarkanir á gjaldeyrismisræmi.

„Þjóðhagsvarúð er ný hugsun eða aðferðafræði sem hefur komið fram eftir fjármálakreppuna. Þetta er ný hagfræðigrein, líkt og þjóðhagfræði varð til sem grein eftir kreppuna miklu,“ segir Ásgeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .