Hér á landi er erlend fjárfesting með allra minnsta móti. Slíkt ástand dregur úr tækifæri hérlendra fyrirtækja til þess að vaxa og dafna og þar með úr samkeppnishæfni Íslands að sögn Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar.

Það hefur gengið illa á seinustu árum að laða erlenda fjárfestingu hingað til lands, sem er kannski skiljanlegt út af gjaldeyrishöftum. En er eitthvað annað sem við höfum verið að gera vitlaust og þá jafnvel verið að fæla frá okkur þessa fjárfestingu?

„Já, ég held að það sé ýmislegt. Yfirleitt er það nú samkvæmt okkar reynslu hér að það þarf sáralítið til að fæla erlenda fjárfesta frá svona litlum markaði. Öll aðgangshindruner eiginlega stór aðgangshindrun, jafnvel þó að okkur þyki hún kannski lítil. Sem dæmi höfum við lagt áherslu á að reyna að samræma eftir því sem við getum allt sem varðar uppgjör verðbréfa. Dæmi um annað sem hefur flækst fyrir erlendum fjárfestum eru ákveðnar skattaútfærslur, eins og til dæmis afdráttarskattur. Síðan þarf einfaldlega að tryggja að allar reglur í uppgjöri séu samræmdar við það sem gerist annars staðar. Það eru dæmi um þætti sem vekja yfirleitt ekki mikla athygli en geta verið að þvælast fyrir,“ segir Páll.

Hættum að flokka í góða og vonda kapítalista

En hvað með þætti eins og stjórnmálaóvissu. Heldur þú að hún skipti máli í þessu samhengi?

„Já, hún gerir það og er auðvitað tengd höftunum að nokkru leyti. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að mikilvægasta skrefið út af þessum höftum væri að sýna umheiminum fram á að hér væri afskaplega lítil pólitísk óvissa. Auðvitað hafa verið tekin ákveðin skref í þá átt. Menn vilja sjá að það sé ábyrg ríkisfjármálastefna og almennt ábyrg stefna í efnahagsstjórn. Svo auðvitað vilja menn vera vissir um það að sömu reglur gildi fyrir alla,“ segir Páll. Hann segir að það hafi ekki alltaf verið raunin.

„Ég held að við verðum að gæta alveg sérstaklega að því við afnám gjaldeyrishafta að það sé alveg ljóst, með mjög skýrum skilaboðum sem ég held að menn hafi í einhverjum mæli verið að reyna að gera, að það eigi eitt yfir alla að ganga. Það gildi sömu reglur fyrir alla hverju nafni sem menn nefnist og menn séu ekki flokkaðir, til dæmis í góða og vonda kapítalista.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .