Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir flutti suður fyrir tveimur árum eftir að þau hjónin höfðu verið með búsetu bæði í Reykjavík og á Akureyri. Hún á fimm börn svo menntamál eru henni hugleikin, en hún tók nýlega við sem forstöðumaður mennta- og mannauðsmála hjá Samtökum iðnaðarins.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir er fædd og uppalin í Eyjafirði en flutti í borgina fyrir tveimur árum. Þá höfðu hún og maður hennar, Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, verið með búsetu bæði í Reykjavík og á Akureyri. „Slíkt fyrirkomulag er erfitt til lengdar og við ákváðum því að sameina fjölskylduna,“ segir Ingibjörg sem nýlega tók við sem forstöðumaður mennta- og mannauðsmála hjá Samtökum iðnaðarins.

Menntun lykill að aukinni framleiðni

„Það er gjarnan talað um að menntamálin séu einn af hornsteinunum í framþróuninni í íslenskum iðnaði svo þetta er virkileg áskorun og spennandi tækifæri víða. Stóra málið fyrir Samtök iðnaðarins snýr að því að bæta framleiðni íslenskra fyrirtækja. Bæði sjáum við fram á það að í ákveðnum greinum er vöntun á fólki, við höfum verið að hvetja ungt fólk að skoða verk- og iðnnám og munum gera það áfram og allt sem kemur að menntun í raun- og tæknigreinum því þetta er það sem við sjáum að muni mest vanta á næstu misserum. Það er okkar hlutverk að veita aðhald og hjálpa til með sýnina og skýra þarfirnar,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri með meistaranám í stjórnun og stefnumótun. Var hún lengst af framkvæmdastjóri menningarhússins Hofs á Akureyri. „Það var ótrúlega gaman að fá að takast á við þau verkefni sem fylgdu Hofi, í svona litlu samfélagi er svo mikilvægt að til staðar sé svona starfssemi,“ segir Ingibjörg sem á fimm börn á öllum skólastigum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .