„Það hefur verið umræða um það í hálfa öld að taka upp aðra mynt á Íslandi. [...] En öll mál eru ekki leyst með öðrum gjaldmiðli,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnar tíma á Alþingi í dag. Skýrsla Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræðurnar við Ísland sem birt var í morgun var þar til umræðu. Þeir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, spurðu báðir Bjarna út í efni skýrslunnar og þá ákvörðun ríkissstjórnarinnar að slíta aðildarviðræðum við ESB.

Fram kom í skýrslu Alþjóðamálastofnunar að átta smáríki hafi þegar tekið upp evru með aðild að ERM II og sex þeirra gerðu það á 2-3 árum. Af reynslu Íslands af fastgengi á árunum 1989 til 2001 og reynslu annarra ríkja verði ekki önnur ályktun dregin en að Ísland ætti að geta gengið í gegnum ERM II-ferlið til upptöku evru á lágmarkstíma – það er á 2-3 árum.

„Með aðild Íslands að myntbandalagi Evrópu yrði Seðlabanki Íslands eitt af útibúum Evrópska seðlabankans og fengi þar með réttindi til prentunar á evrum. Með því fengi Seðlabankinn tæki til þess að varðveita fjármálastöðugleika og þjóna sem lánveitandi til þrautarvara. Aukinheldur myndi prentvald í evrum bæta efnahagslega stöðu heimila og rekstrarumhverfi atvinnulífs þar sem verðbólga, gengisóstöðugleiki og vaxtasveiflur myndu minnka verulega,“ segir í skýrslunni.

Guðmundur vakti m.a. máls á fastgenginu og sagði velsæld hafa ríkt hér þegar íslenska krónan var tengd evru. Bjarni sagði hins vegar að það hafi verið erfiðleikum hátt. Hann benti jafnframt á að það væri krónunni að þakka að hér væri atvinnuleysi lægra en í hverju einasta ESB-ríki og að þau ríkis sem hafi ákveðið að taka þátt í myntsamstarfinu upp á síðkastið hafi ekki átt um aðra kosti að velja.