Evrópuþingmaður breska Íhaldsflokksins, Daniel Hannan, sem kallaður hefur verið einn helsti hugmyndafræðingur og höfundur Brexit, eins og útganga Bretlands úr Evrópusambandinu er kölluð, er aðalræðumaður á ráðstefnu samtaka frjálslyndra stúdenta, Students for Liberty á Íslandi í dag föstudaginn 6. október í salnum að Hamraborg 6 í Kópavogi.

Ráðstefnan hefst kl. 17:00 en aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Skoða má dagskrána á facebook síðu samtakanna . Á ráðstefnunni, sem er orðinn árlegur viðburður, mun jafnframt Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, halda fyrsta opinbera erindi sitt í þrjú ár, en hann flytur opnunarávarp.

Eins og áður segir er aðalræðumaðurinn, Daniel Hannan, Evrópuþingmaður Íhaldsflokksins, en hann er einn þeirra hafði forystu um útgöngu Breta úr ESB. Hann er annálaður mælskumaður, og hafa milljónir manna hlustað á ræður hans , en hann hefur barist fyrir útgöngunni, og höfnun Bretlands á því að taka upp evru, áratugum saman.

Bæði Guardian og FT hafa kallað hann hugmyndafræðing og einn helsta höfun útgöngu Bretlands úr ESB, en hann hefur skrifað sex bækur, sem margar hverjar útlista heimsmynd hans um stöðu landsins utan ESB sem gefur þeim tækifæri til að opna á fríverslun við lönd út um allan heim.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um eru átökin breska þinginu nú í hámæli um málið, þar sem bandamaður Hannan í kosningabaráttunni fyrir úrsögn, Boris Johnson stefnir að því að halda þingkosningar með samhentum Íhaldsflokki á bakvið sig sem styðji úrsögn, og ná meirihluta á þinginu gegn stjórnarandstöðu sem verið hefur klofin í málinu.

Hér má sjá brot úr ræðu Daniel Hannan á hátindi umræðunnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um útgönguna:

Á meðal annarra fyrirlesara eru prófessor Hannes H. Gissurarson, sem mælir fyrir blágrænum kapítalisma, og prófessor Edward Stringham, sem talar um ónýtta möguleika frelsisins, en Halla Sigrún Mathiesen viðskiptastjóri slítur ráðstefnunni. Gert verður eitt kaffihlé og eitt matarhlé fyrir léttan kvöldverð á staðnum, en aðrar léttar veitingar verða einnig á boðstólum.