Landsbankinn hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna dóma hæstaréttar um gengistryggð bílalán og tilmæla Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Þar kemur fram að öllum einstaklingum sem eru með fasteignalán í erlendri mynt til lengri tíma en 5 ára, með reglulegum afborgunum og veð í íbúðarhúsnæði býðst nú að greiða lága mánaðarlega greiðslu fram til 1. nóvember.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að greiðslurnar miðast við 5.000 krónur á mánuði fyrir hverja milljón sem getur þýtt verulega lækkun á greiðslubyrði á meðan á þessum tíma stendur. Miðað er við upprunalegan höfuðstól láns. Þannig yrði greiðsla af láni sem upphaflega var 10 milljónir króna, 50.000 krónur á mánuði.

Þetta úrræði er hluti af almennum úrræðum bankans fyrir einstaklinga í greiðsluerfiðleikum og þarf að sækja sérstaklegan um það fyrir 30. september. Hægt verður að sækja um á netinu, í þjónustuveri eða útibúum Landsbankans.

Viðskiptavinum banka og sparisjóða bjóðast sömu kjör þegar kemur að föstum greiðslum af lánum og hafa viðræður um þau farið fram með leyfi Samkeppniseftirlitsins.  Samkeppniseftirlitið hefur fallist á að þessi kjör megi allir bjóða til 1. nóvember, en eftir þann tíma verður að sækja um framlengingu hafi dómstólar þá ekki eytt óvissu um álitamál.

Landsbankinn segir í fréttatilkynningu að óski lánþegar með fyrrnefnd skuldabréf ekki eftir því að lán þeirra verði endurreiknuð, er þeim bent á að snúa sér til bankans fyrir 15. ágúst. Þeir geta þá valið um að halda hinu erlenda láni sínu og greiða af því á sama hátt og áður telji þeir það hagstæðara, eða óskað eftir því að greiða tímabundið fastar greiðslur á sama hátt og greint var frá hér að ofan.

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Landsbankans lækkar höfuðstóll þeirra fasteignalána sem falla undir dóminn um 25% – 40%, breytilegt eftir því hvenær lán voru tekin og í hvaða mynt. Dæmi eru um lægri lækkun höfuðstóls lána sem tekin voru eftir mestu gengisfellingarnar, en einnig dæmi um mun meiri lækkun í þeim myntum sem þróast hafa á versta veg fyrir lántaka.

Rétt er að vekja athygli á því að óvissa ríkir um skattaleg áhrif þessara breytinga.

Í fréttatilkynningunni segir að augljóst er að þessar breytingar sem nú verða gerðar á lánasafni bankans munu hafa áhrif á stöðu hans og  valda því að eiginfjárhlutfall bankans lækkar. Nákvæmur endurreikningur lána og endurgreiðslur til viðskiptavina eftir atvikum, munu svara því hversu mikil áhrifin verða en að öllu öðru óbreyttu er ljóst að bankinn stendur eftir sem áður traustum fótum. Lausafjárstaða Landsbankans er sterk og rekstur bankans er góður.  Stjórnendur og starfsmenn bankans hafa ríkan metnað fyrir hans hönd og telja tækifærin á markaði mikil fyrir vel rekinn banka í almannaeigu í nánustu framtíð.

Þá segir enn fremur að óumdeilt er að margt fór úrskeiðis í rekstri fjármálafyrirtækja á  árunum fyrir bankahrun, þar með talið við lánveitingu gengistryggðra lána. Landsbankinn harmar þau óþægindi sem viðskiptavinir hafa orðið fyrir af þessum sökum.