Bandarísku fréttasíðunni Gawker.com var á dögnum gert að greiða glímukappanum Hulk Hogan, sem að réttu nafni heitir Terry G. Bollea, 115 milljónir Bandaríkjadollara sem samsvarar rúmum 14.4 milljörðum íslenskra króna. Var fjömiðillinn talinn hafa brotið gegn friðhelgi Bollea.

Dómsmálið fjallaði um kynlífsmyndband af kappanum og er niðurstaða þess áfall fyrir miðilinn sem undanfarið hefur breytt um stefnu og fjallar nú aðallega um stjórnmálafréttir.

Fjárhagsleg áhrif á fyrirtækið, sem er með 250 manns í vinnu, eru ekki enn ljós en þó má gera ráð fyrir að þau verði veruleg.

Fræðimenn ytra hafa einnig lýst því yfir að dómsniðurstaðan feli í sér mikilvægt fordæmi sem muni að öllum líkindum hafa mikil áhrif á starfshætti fjölmiðla í Bandaríkjunum.